Í gær skrifaði ég stutta færslu um Bourgogne og Pinot Noir. Færsla dagsins verður enn styttri en það er ljóst að það er kominn tími á ítarlegar færslur um helstu vínhéruð og þrúgur heimsins. Bourgogne er þekktast fyrir afbragðsgóð rauðvín en að mínu mati ætti héraðið að vera alveg jafn þekkt fyrir frábær hvítvín.
Eins og kom fram í færslu gærdagsins þá er það dálítill frumskógur að fara í gegnum Bourgogne. Til einföldunar má segja að sum héruð framleiða einkum eða nánast eingöng rauðvín, sum framleiða einkum hvítvín og önnur framleiða bæði rauð og hvít vín.
Vín dagins
Vín dagsins kemur að mestu frá vínekrum í kringum þorpið Saint-Aubin, sem einkum er þekkt fyrir góð hvítvín. Saint-Aubin er staðsett í Côte de Beaune, þar sem allar hvítu Grand Cru-vínekrurnar eru. Að sjálfsögðu er hér um 100% Chardonnay að ræða.
Chateau de Santenay Vieilles Vignes Chardonnay Bourgogne 2017 er föl-sítrónugult á lit og fallegt í glasi. Í nefinu finnur maður sítrónur, epli, heslihnetur, steinefni og fínlega eik. Í munni er góð sýra og ágætt jafnvægi. Epli, sítrónur ráðandi í grösugu eftirbragðinu. Fer vel með fuglakjöti, pasta, fiskréttum og skelfiski. 89 punktar. Góð kaup (3.690 kr). – Sýnishorn frá innflytjanda.
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,8 stjörnur (48 umsagnir þegar þetta er skrifað).