Þorpið Montalcino í Toscana á sér langa og merkilega sögu sem nær a.m.k. aftur til ársins 814. Vegna staðsetningar sinnar við mikilvægar samgönguleiðir í Toscana var þorpið oft bitbein í átökum á þessum slóðum. Montalcino hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 2004 sem hluti af svæðinu Val d’Orcia.
Víngerð í Montalcino á sér langa sögu þó að það sé einkum undanfarnir 3 áratugir sem hafa komið vínunum í hóp þeirra bestu á Ítalíu. Þekktustu vínin frá Montalcino eru án efa Brunello di Montalcino. Þau eru gerð úr þrúgunni Sangiovese og þurfa að fá að þroskast í a.m.k. 4 ár áður en þau fara í sölu. Aðeins má nota þrúgur af tilteknum vínekrum við gerð Brunello di Montalcino. Þrúgur sem ekki uppfylla gæði fyrir Brunello má hins vegar nota í Rosso di Montalcino. Alls eru um 2100 hektarar lands undir vínekrum sem nota má í Rosso di Montalcino en aðeins um 500 hektarar undir vínekrum sem nota má í Brunello di Montalcino.
Líkt og Brunello er Rosso di Montalcino gert úr hreinu Sangiovese, en það þarf hins vegar aðeins að liggja í 1 ár á tunnum. Flestir víngerðarmenn nota tunnur úr slavónskri eik til að koma í veg fyrir að eikarbragðið verði of áberandi, en sumir nota líka tunnur úr franskri eik til að auka eikaráhrifin.
Lengi vel var talið að þrúgurnar á vínekrunum í Montalcino væru sérstakt afbrigði sem kallaðist Brunello. Árið 1879 var hins vegar „ákveðið“ að Brunello og Sangiovese væru sama þrúgan og að þær skyldu kallast Brunello. Árið 1980 var Brunello di Montalcino skilgreint sem DOCG sem er efsta stig í gæðaflokkun ítalskra vína. Rosso di Montalcino hefur frá árinu 1983 verið skilgreint sem DOC, sem er næsta skref fyrir neðan DOCG. Eftir að Brunello var skilgreint sem DOCG hefur þeim framleiðendum sem framleiða Brunello fjölgað mjög, eða úr rúmlega 50 í u.þ.b. 200.
Vín dagsins
Vínhús Il Poggione á sér langa sögu, líkt og svo mörg vínhús í Toscana. Það var hins vegar með þeim fyrstu að búa til Brunello di Montalcino og hefur gert Brunello í meira en 100 ár. Bæði Brunello og Rosso di Montalcino frá Il Poggione hafa ratað inn á topp-100 lista Wine Spectator yfir vín ársins. Brunello-inn frá Il Poggione er með þeim betri sem hægt er að kaupa í vínbúðum hérlendis, a.m.k. ef borin eru saman verð og gæði. Vín dagsins er að sjálfsögðu gert úr hreinu Sangiovese og hefur fengið að þroskast í eitt ár á tunnu og flösku.
Il Poggione Rosso di Montalcino 2018 er rúbínrautt á lit, með góða dýpt og örlítil þroskamerki. Í nefinu finnur maður plómur, kirsuber, leður og skógarber. Í munni eru miðlungstannsín, góð sýra og ágæt fylling. Plómur, rauð ber, smá kakó og ögn af leðri í kryddu og þægilegu eftirbragðinu. 89 stig. Fer vel með með pizzu, grilluðu svínakjöti, pastaréttum með tómat- eða kjötsósum og með ostum. Góð kaup (3.490 kr).
Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (1.013 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 88 stig og undanfarinn áratug hefur þetta vín verið að fá 87-91 stig. Wine Spectator hefur gefið fyrri árgöngum 88-90 stig.