Peter Lehmann Portrait Cabernet Sauvignon 2017

Eins og áður hefur komið fram hér á Vínsíðunni þá hef ég lengi verið aðdáandi vínanna frá Peter Lehmann. Fyrir skömmu skrifaði ég um Portrait Shiraz 2017 og nú er röðin komin að öðru rauðvíni í sömu línu. Portrait-línan frá Peter Lehmann er hugsuð þannig að hún eigi að endurspegla loforð sem Peter Lehmann gaf vínbændum á sínum tíma – að búa til vín sem eru einkennandi fyrir Barossa-dalinn. Lehmann kaupir nefnilega bróðurpartinn af sínum þrúgum frá vínbændum í Barossa. Þannig koma þrúgurnar í víni dagsins frá fjölmörgum vínbændum í Barossa.

Vín dagsins

Vín dagsins er 100% Cabernet Sauvignon úr Barossa-dalnum. Að lokinni gerjun er vínið látið hvíla í 15 mánuði á tunnum úr amerískri og franskri eik. Um 10% af tunnunum eru nýjar en afgangurinn hefur verið notaður a.m.k. einu sinni áður.

Peter Lehmann Portrait Cabernet Sauvignon 2017 er kirsuberjarautt á lit, með miðlungsdýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, leður, plómur, smá mentól og ögn af vanillu. Í munni eru hrjúf tannín, rífleg sýra og ágætur ávöxtur. Sólber, plómur, eik og ögn af tóbaki í ágætu eftirbragðinu. 87 stig. Ágæt kaup (2.999 kr.). Fer ágætlega með nautakjöti, lambakjöti og léttari villibráð. Tilbúið til neyslu núna en þolir alveg geymslu í allt að 5 ár til viðbótar.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,6 stjörnur (146 umsagnir þegar þetta er skrifað)

Peter Lehmann Portrait Cabernet Sauvignon 2017
Peter Lehmann Portrait Cabernet Sauvignon 2017 fer ágætlega með nautakjöti, lambakjöti og léttari villibráð.
3.5
87 stig

Vinir á Facebook