Fyrir skömmu skrifaði ég um tvö vín frá [Yellow Tail] – Moscato og Pinot Grigio – og ég hef í raun litlu við að bæta um þetta ágæta vínhús. Reyndar komast ég að því við ritun þessa pósts að dýrið sem er á flöskumiðum [Yellow Tail] kallast Yellow-footed rock-wallaby og er náskylt kengúrum. Sjálfsagt er til íslenskt heiti á þessu dýri en ég læt það liggja milli hluta. Hins vegar hef ég ekki enn komist að því hvers vegna nafnið [Yellow Tail] er ritað innan hornklofa…
Nú er röðin komin að rauðvíni frá þessu ágæta vínhúsi Casella-fjölskyldunnar. Vín dagsins er eitt af 4 rauðvínum frá [Yellow Tail] sem fást í vínbúðunum.
[Yellow Tail] Merlot 2019 er kirsuberjarautt á lit og unglegt, aðeins í ljósari kantinum fyrir Merlot. Í nefinu finnur maður sæt kirsuber, bláber, skógarber, súkkulaði og lyng. Í munni eru miðlungstannín, rífleg sýra og örlítið sætur ávöxtur. Bláber, krækiber, vanilla og plómur í léttu eftirbragðinu. Fer eflaust vel með pinnamat, fuglakjöti og pasta með hvers kyns tómatsósum. 86 stig. Kostar ekki nema 2.299 krónur. Sýnishorn frá innflytjanda.