Gerard Bertrand Art de Vivre Clairette du Languedoc Adissan 2018

Fyrir skömmu skrifaði ég um hið ágæta Art de Vivre rauðvín frá Gerard Bertrand. Eins og þar kemur fram þá er Art de Vivre óður til Miðjarðarhafsins – menningarinnar, sögunnar og lífsins þar. Vínin eru ekki í hefðbundnum glerflöskur heldur í leirflöskum, sem vísar til amfóranna sem vín voru geymd í áður en glerflöskur komu til sögunnar. Sama gildir um hvítvínið í þessari línu – það er í leirflösku en ekki í gleri.

Hvítvínið í þessari línu er gert úr þrúgunni Clairette Blance, sem einkum er ræktuð í suður-Frakklandi. Þrúgan inniheldur tiltölulega litla sýru og vínin úr henni eru oft nokkuð áfengisrík. Fyrir vikið hentar hún vel í gerð Vermouth, sem er styrkt kryddvín. Þrúgurnar koma af vínekrum í nágrenni þorpsins Adissan í Hérault, rétt austan við borgina Montpellier.

Clairette á sér glæsta sögu og var ein vinsælasta hvítvínsþrúgan við Miðjarðarhafið hér áður fyrr. Þorri Hringsson lýsir þessari þrúgu á afar skemmtilegan hátt, svo að ég leyfi mér að vitna í hann:

„…á 17. og 18. öldinni voru einhver vinsælustu hvítvín Miðjarðarhafsins gerð í Languedoc úr blöndu af Clairette og Picpoul og flutt um alla Evrópu. Þá gerði það lítið til að þessi þrúga skuli vera afar ó-stabíl og oxast hratt, því þannig voru eiginlega bara öll hvítvín á þeim tíma; appelsínugul eða gulbrún og smökkuðust einsog lélegt sérrí. Þeir sem vitlausastir eru nú á dögum halda svo ekki vatni yfir samskonar hálfónýtum vínum og kalla þau náttúruvín og eru nú heldur en ekki drýldnir yfir sínum frábæra smekk.“

https://www.facebook.com/vingardurinn.iceland

Vín dagsins

Eins og áður segir er vín dagsins gert úr þrúgunni Clairette Blanche. Þrúgurnar voru tíndar að morgni dags til að halda hámarks ferskleika. Vínið er kaldgerjað og gerjunin er stöðvuð þegar sykurmagnið er komið í 12 g/L. Áfengismagnið er þá komið í 13%. Ég fæ ekki séð að þetta hafi haft viðkomu í eikartunnum. Þetta er fyrstu árgangurinn af þessu víni og það hlaut Gyllta glasið 2020.

Gerard Bertrand Art de Vivre Clairette du Languedoc Adissan 2018 er fölgult á lit, unglegt. Í nefinu finnur maður blómlegan ilm af niðursoðnum ferskjum og perum, sítrus og ristaðar möndlur. Í munni er vínið örlítið sætt og sýran er mild. Ávaxtaríkt eftirbragð með perum, niðursoðnum mandarínum og ögn af sítrus. Matarvænt vín sem fer vel með fiski, fuglakjöti, salati, jafnvel graflaxi eða bara eitt og sér sem fordrykkur. 89 stig. Góð kaup (2.899 kr).

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.8 stjörnur (755 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri í Víngarðinum gefur þessu víni 4 stjörnur. Steingrímur í Vinoteki gefur því 4.5 stjörnur.

Gerard Bertrand Art de Vivre Clairette du Languedoc Adissan 2018
Gerard Bertrand Art de Vivre Clairette du Languedoc Adissan 2018 er matarvænt vín sem fer vel með fiski, fuglakjöti eða bara sem fordrykkur.
4
89 stig

Vinir á Facebook