Apothic Dark 2017

Vínhús Apothic í Kaliforníu sækir nafn sitt í Apotheca en svo munu aðsetur víngerðarmanna hafa verið nefnd í Evrópu á 13. öld. Það er a.m.k. fullyrt á heimasíðu fyrirtækisins. Það er hins vegar lítið af öðrum upplýsingum um þetta ágæta vínhús á heimasíðunni þeirra og leitarvélar internetsins bæta litlu þar við. Víngerðarkonan Debbie Juergenson segir þó að vínum Apothic sé ætlað að skera sig úr fjöldanum. Hún segir að hvert vín eigi að segja tiltekna sögu, hvort sem það er drama, spenna eða rómantík. Blöndurnar eru sumar óhefðbundnar, eins og vín dagsins gefur til kynna.

Vínin frá Apothic fóru fljótlega að njóta mikilla vinsælda og þau munu vera í fararbroddi hinnar svokölluðu nýju Kaliforníuvína. Þessi vín eru flest blöndur nokkurra þrúga og er ætlað að höfða til ungra vínneytenda.

Þrúgurnar í Apothic Dark koma frá svæðunum Lodi og Clarksburg. Lodi er rétt austan við San Francisco. Það hefur verið skilgreint sem sérstakt vínræktarsvæði (American Viticultural Area – AVA) frá árinu 1986. Þar eru nú um 42.000 hektarar af vínekrum. Lodi er þekktast fyrir Zinfandel, sem er ræktaður á gömlum vínvið, en þar eru einnig ræktað mikið af Merlot, Chardonnay, Cabernet Sauvignon og Sauvignon blanc. Clarksburg er rétt fyrir norðan Lodi. Flestir vínbændur í Clarksburg selja þrúgur sínar til vínhúsa annars staðar í Kaliforníu og það eru fá vínhús þar sem senda frá sér vín sem kennd eru við svæðið.

Vín dagsins

Vín dagsins er blandað úr 7 þrúgum frá Lodi og Clarksburg – Petite Syrah, Cabernet Sauvignon, Petit Verdot, Teroldego, Tannat og Zinfandel. Þrúgurnar eru víst tíndar að nóttu til að halda í ferskleika vínsins. Þrúguna Teroldego þekki ég ekki vel en mér skilst að hún sé mest ræktuð í Trentino og Alto Adige á norður-Ítalíu.

Vínið kemur úr hvorki meira né minna úr sjö þrúgu tegundum, þetta eitt af þessum yfirgnæfandi miklu átta sýlindra Kaliforníuvínum þar sem allt er gefið í botn, stíllinn er það sem Bandaríkjamenn lýsa sem „bold“ og víninu er ekki síst ætlað að höfða til millenials-kynslóðarinnar. Apothic Dark er blanda úr þrúgunum .

Apothic Dark 2017 er mjög dökkrautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður sultuð kirsuber, brómber, dökkt súkkulaði, kaffi og smá eik. Í munni er vínið kröftugt og aggressíft, með mild tannín og sæmilega sýru. Ágætur ávöxtur með sterkum keim af sultuðum kirsuberjum, brómberjum, dökku súkkulaði og ögn af eik. 86 stig. Góð kaup fyrir þá sem vilja þessi nýju Kaliforníuvín (2.599 kr). Fer eflaust ágætlega með grilluðu kjöti hvers konar.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3.8 stjörnur (2046 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Apothic Dark 2017
Apothic Dark 2017 tilheyrir nýrri kynslóð Kaliforníuvína sem höfða til nýrra vínneytenda. Fer eflaust ágætlega með grilluðu kjöti hvers konar.
3.5
86 stig

Vinir á Facebook