Íslenskir vínunnendur þekkja flestir vínin frá Gerard Bertrand. Þau hafa verið í hillum vínbúðanna í áraraðir og notið töluverðra vinsælda, enda gæðavín á góðu verði. Vínin hafa verið fastagestur þegar kemur að veitingu Gyllta glassins ár hvert og það ætti ekki að koma neinum á óvart sem þekkja vínin frá Bertrand. Bertrand hefur líka verið nefndur Languedoc-kóngurinn og hann ber þann titil með rentu. Hann hefur verið í fararbroddi víngerðar í héraðinu, einkum þegar kemur að lífrænni og bíodynamiskri vínrækt og víngerð.
Nýjasta viðbótin frá Gerard Bertrand kallast „Art de Vivre“ eða „Listin að lifa“. Vínin er að sögn Bertrand óður til Miðjarðarhafslífsins, sögu, menningar og náttúru svæðisins. Vínin eru ekki í hefðbundnum glerflöskum heldur í leirflöskum, sem vísar til amfóranna sem vín voru geymd í áður en glerflöskurnar komu til sögunnar. Vín voru líka geymd í stórum amfórum áður en eikartunnurnar tóku við. Sú aðferð við víngerð, þ.e. notkun stórra amfóra, hefur verið að ganga í endurnýjun lífdaga og margir víngerðarmenn verið að prófa sig áfram í þeim efnum.
Vín dagsins
Vín dagsins er í hefðbundnum Languedoc-stíl, þó svo að umbúðirnar séu öðruvísi. Hér er á ferðinni klassísk GSM-blanda – Grenache, Syrah og Mourvedre. Hluti vínsins var geymdur á eikartunnum (auðvitað frönskum) í 8 mánuði áður en lokablöndun átti sér stað. Þetta er fyrsti árgangur þessa víns, en einnig er fáanlegt hvítvín í þessari línu, sem ég mun fjalla um á næstunni.
Gerard Bertrand Art de Vivre Languedoc Rouge 2015 er kirsuberjarautt, byrjandi þroski ogmiðlungsdýpt. Í nefinu kirsuber, hindber, bláber og krydd. Miðlungstannín, ágæt sýra, miðlungs ávöxtur. Skógarberjasulta, appelsínubörkur, krækiber og lyng í þéttu og þægilegu eftirbragðinu. 90 stig. Mjög góð kaup (2.999 kr). Fer vel með grillmatnum ásamt hefðbundnum Miðjarðarhafsmat (pasta, fuglakjöt, kjötkássur).
Notendur Vivino gefa þessu víni 3.8 stjörnur (379 umsagnir þegar þetta er skrifað). Wine spectator gaf því 90 stig og setti í 78. sæti á topp-100 listanum 2019. Þorri í Víngarðinum gefur því 4 stjörnur og Steingrímur í Vinoteki gefur því 4,5 stjörnur.