Peter Lehmann Portrait Shiraz 2017

Ég hef lengi verið aðdáandi vínanna frá Peter Lehmann og mér telst til að þetta sé í 30. skipti sem nafn hans kemur fyrir í færslum mínum hér á Vínsíðunni. Ekki er svo að skilja að þar séu alltaf mínir eigin víndómar á ferð. Vínin frá Peter Lehmann hafa nefnilega verið fastagestir á listanum yfir þau vín sem hljóta Gyllta glasið ár hvert.

Portrait-línan frá Peter Lehmann er hugsuð þannig að hún eigi að endurspegla loforð sem Peter Lehmann gaf vínbændum á sínum tíma – að búa til vín sem eru einkennandi fyrir Barossa-dalinn. Lehmann kaupir nefnilega bróðurpartinn af sínum þrúgum frá vínbændum í Barossa. Þannig koma þrúgurnar í víni dagsins frá rúmlega 60 vínbændum í Barossa.

Vín dagsins

Eins og áður segir þá er hugsunin á bak við Portrait-línuna að vínin séu einkennandi fyrir Barossa-dalinn. Portrait Shiraz á líka að líkjast upphaflega Peter Lehmann Shiraz eins og hægt er. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í stórum eikarámum (300 lítra tunnum sem kallast Hogshead) úr franskri og amerískri eik, þar af eru um 10% nýjar tunnur. Þetta vín hlaut Gyllta glasið árin 2005, 2012, 2014 og 2016, og 2017-árgangurinn sem hér um ræðir fékk Gyllta glasið árið 2019.

Peter Lehmann Portrait Shiraz 2017 er kirsuberjarautt á lit, með miðlungsdýpt og sýnir byrjandi þroska. Í nefinu eru kirsuber, leður, pipar, sólber og fínleg eik. Miðlungstannín, hófleg sýra og ágætur ávöxtur. Leður, plómur og sólber í ágætu eftirbragðinu. Fer vel með grillmat hvers konar, en einnig pizzum og pastaréttum með kjötsósum. Á heimasíðu Peter Lehmann er einnig mælt með víninu með krydduðum grillpylsum. Þar er reyndar einnig sagt að vínið sé tilvalið að njóta í hádeginu en ég ætla þó ekki að taka undir það! 88 stig. Góð kaup (2.999 kr). Sýnishorn frá innflytjanda.

Robert Parker gefur þessu víni 87 stig. Wine Spectator gefur einnig 87 stig. Notendur Vivino gefa 3.7 stjörnur (1306 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur 4,5 stjórnur.

Peter Lehmann Portrait Shiraz 2017
Peter Lehmann Portrait Shiraz 2017 fer vel með grillmat hvers konar, en einnig pizzum og sumum pastaréttum.
4
88 stig

Vinir á Facebook