Eins og ég sagði í síðasta pistli þá hafa vínin frá Montes lengi glatt íslenska vínáhugamenn. Vín dagsins hef ég náð að smakka nokkrum sinnum en mér sýnist að það séu orðin 4 ár frá því ég smakkaði það síðast. Það er því auðvitað orðið tímabært að endurnýja kynnin við þetta ágæta vín.
Vín dagsins kemur frá Colchagua-svæðinu í Valle Centrale í Chile. Hér er á ferðinni blanda af 85% Merlot og 15% Carmenere. Að lokinni gerjun var tæplega helmingurinn settur í franskar eikartunnur í 8 mánuði, en restin fékk að hvíla í stáltönkum.
Montes Merlot Reserva 2018 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður bláber, leður, anís og ferskar kryddjurtir. Í munni eru miðlungstannín, góð sýra og ágætur ávöxtur. Skógarber, leður, dökkt súkkulaði og kryddjurtir í ágætu eftirbragðinu. 88 stig. Mjög góð kaup (2.259). Fer vel með fuglakjöti, léttari kjötréttum og grillmat. Endist líklega í 3-4 ár til viðbótar.
Wine Spectator gefur þessu víni 89 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 3.5 stjörnur (577 umsagnir þegar þetta er skrifað.