Vinhús Orin Swift varð til í kjölfar þess að ungur maður frá Los Angeles – David Swift Phinney – fór í sumarfrí til Ítalíu árið 1995. Phinney, þá 22 ára gamall, kynntist það víngerð og vínmenningu og ákvað að snúa sér að víngerð í stað þess að fara í lögfræði eða stjórnmál. Við heimkomuna fór hann að fikta við að rækta vínvið og varð sér úti um störf er tengjast víngerð. Hann giftist síðan inn í víngerðarfjölskyldu, stofnaði eigið vínhús og fór að búa til sín eigin vín með því að kaupa þrúgur og nota það sem hann átti sjálfur. Vínhúsið nefndi hann eftir foreldrum sínum – Orin er millinafn föður hans og Swift er skírnarnafn móður hans.
Fyrsta vínið frá Orin Swift nefndist The Prisoner – blanda Zinfandel, Cabernet Sauvignon og Petite Sirah, ásamt örlitlu af Syrah og Charbono – og kom á markað árið 2000. Á þeim tíma voru vinsældir Zinfandel á mikilli uppleið. Vínið hlaut góða dóma ár eftir ár og vinsældir þess jukust. Árið 2010 seldi hann The Prisoner til annars vínhúss fyrir 40 milljónir dollara.
Í kjölfarið fór David Phinney að þróa víngerðina áfram og fór m.a. að rækta vín í Roussillon í Frakklandi. Í samstarfi við aðra víngerðarmenn gerir hann nú vín m.a. á ítalíu, í Frakklandi og á Spáni. Árið 2016 keypti vínrisinn E. & J. Gallo vínhús Orin Swift, en David Phinney hefur áfram haldið um stjórnartaumana og víngerðina.
Vínin frá Orin Swift eru því miður ekki fáanleg í vínbúðum hérlendis, en þau eru þó fáanleg á einhverjum veitingastöðum, m.a. á Steikhúsinu í Tryggvagötu.
Vín dagsins
Vínið Palermo kom fyrst fram árið 2009. Það er að mestu gert úr Cabernet Sauvignon, en í því er einnig örlítið af Merlot og Malbec. Það er látið þroskast í 12 mánuði á frönskum eikartunnum, þar sem tæplega helmingurinn eru nýjar tunnur en hinar hafa verið notaðar áður.
Orin Swift Palermo Cabernet Sauvignon 2018 er djúp-rúbínrautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður sólber, brómber, leður, súkkulaði, vanilla, kakó og anís. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Sólber, leður, kakó, eik og vanilla í þéttu eftirbragðinu sem heldur sér vel og lengi. Örlítið hrjúft vín sem fer vel með góðri steik. Klassískt Kaliforníuvín en kemur aðeins við budduna (8.499 kr). 92 stig.
Fyrri árgangar hafa verið að fá 88-92 stig hjá Wine Spectator og 90-94 stig hjá Robert Parker. Þessi árgangur fær 93 stig hjá Robert Parker. Notendur Vivino gefa þessum árgangi 4.2 stjörnur (348 umsagnir þegar þetta er skrifað).