Wynn’s Coonawarra Michael Shiraz 2010

Í gærkvöldi var hið svokallað „Open That Bottle Night“ en þá er tilefni til að opna flöskuna sem þú hefur geymt fram að sérstöku tilefni, en vantar í raun tilefnið sjálft! Þetta kvöld var fyrst haldið hátíðlegt árið 2000 og það var að undirlagi tveggja blaðamanna á The Wall Street Journal. Dorothy J. Gaiter og John Brecher vildu hvetja lesendur blaðsins til að opna sérstaka flösku og deila upplifun sinni með öðrum lesendum. Þessi uppákoma sló í gegn og hefur síðan þá verið haldin ár hvert, síðasta laugardag í febrúar.

Hugsunin á bak við Open That Bottle Night er sú að vín er meira en bara vökvi í flösku. Með víninu koma minningar um merka áfanga á lífsleiðinni, fæðingar, hjónabönd og andlát, gleðistundir með góðum vinum eða eftirminnileg ferðalög. Slíkar minningar eru verðmætar og þeim er hægt að deila með öðrum og gleðjast.

Ég verð að viðurkenna að ég steingleymdi að undirbúa þetta kvöld og mundi bara eftir þessu í fyrrakvöld. Ég ákvað þá að opna flösku sem hefur lengi verið í hávegum haft í Vínklúbbnum. Michael Shiraz frá vínhúsi Wynn’s í Ástralíu var eitt fyrsta „stóra“ vínið sem var smakkað í Vínklúbbnum, en það var reyndar áður en ég komst í klúbbinn. Það hefur svo gerst endrum og sinnum að einhver hafi komist yfir flösku af þessu frábæra víni og hér má sjá stuttar umsagnir um 1996 og 1998 árgangana.

Hápunkturinn í samskiptum Vinklúbbsins og Wynn’s var auðvitað þegar Sue Hodder, winemaker hjá Wynn’s, kom til landsins og hélt einkasmökkun með Vínklúbbnum. Þar fór hún yfir helstu vín Wynn’s með okkur, en reyndar var Michael Shiraz ekki með þetta kvöld.

Þessa tilteknu flösku keypti ég í Malmö í október 2013 og hafði svo sem hugsað mér að opna á Vínklúbbsfundi en í gær fannst mér bara vera kominn tími á hana!

Wynn’s Coonawarra Estate

Vínhús Wynn’s í Coonawarra rekur sögu sína aftur til 19. aldar, er John Riddock hóf að rækta vínvið og ávaxtatré á landareign sinni. Um 1890 var sjálf víngerðin byggð og kallaðist þá Chateau Comaum. Fyrirtækinu gekk ekkert sérstaklega vel, ekki frekar en öðrum vínhúsum í Coonawarra á fyrri hluta 20. aldar. Útlit var fyrir að víngerðinni yrði breytt í ullargeymslu og fjárhús þegar feðgarnir Samuel og David Wynn komu til sögunnar. Þeir snéru við taflinu í rekstri og áherslum víngerðarinnar og hófu fyrirtækið til vegs og virðingar. Michael Shiraz er nefnt eftir yngsta syni David og var fyrst búið til árið 1955, en kallaðist þá Hermitage. Þá reyndust gæðin í einum 2,300 lítra tankinum vera slík að því var tappað sérstaklega á flöskur og kallað Michael.

Vín dagins

Michael Shiraz var fyrst gert árið 1955 en svo liðu mörg ár áður en það leit aftur dagsins ljós árið 1990. Vínið er besta Shiraz-vínið sem Wynn’s sendir frá sér og aðeins framleitt í góðum árgöngum. Nýjasti árgangur af Michael Shiraz er frá árinu 2016. Vínið er hreint Shiraz og fær að liggja í rúmt ár á tunnum úr franskri eik, þar sem um 13% þeirra eru nýjar tunnur, en afgangurinn eru 2-4 ára notaðar tunnur. Vínið á að vera tilbúið til neyslu þegar það kemur í sölu en á líka að þola allt að 15 ára geymslu við góðar aðstæður.

Wynn’s Coonawarra Michael Shiraz 2010 er djúprautt á lit, með góða dýpt og ágætan þroska. Í nefinu finnur maður leður, anís, vanillu, plómur, kirsuber, kakó og krydd. Í munni er mjúk tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, tóbak, kirsuber og smá eik í eftirbragðinu sem er í senn bæði silkimjúkt en einnig kryddað. Frábært vín sem var næstum því of öflugt fyrir grillaða nautalundina og naut sín best eitt og sér. 95 stig.

Robert Parker gefur þessu víni 94 stig. Notendur Vivino gefa þessu víni 4,3 stjörnur (99 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Wynn’s Coonawarra Michael Shiraz 2010
Wynn's Coonawarra Michael Shiraz 2010 er frábært vín sem fer vel með steikinni en nýtur sín líka vel eitt og sér.
5
95 stig

Vinir á Facebook