Í haust komu í vínbúðirnar 2 rauðvín frá vínhúsi Vietti í Piemonte. Ég var svo heppinn að ná að smakka bæði þessi vín í haust, auk hvítvínsins Roero Arneis. Öll þessi vín vöktu mikla lukku hjá viðstöddum og skyldi engan undra, því vínin frá Vietti hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda. Þekktustu vínin frá Piemonte eru án efa Barolo og Barbaresco, sem eru gerð úr þrúgunni Nebbiolo. Vínsvæðin Barolo DOCG og Barbaresco DOCG eru bæði í héraðinu Langhe. Langhe er reyndar þekkt fyrir ýmislegt fleira en góð rauðvín. Þar vaxa trufflusveppir í jörðu og í héraðinu eru einnig framleiddir góðir ostar. Hluti héraðsins, einkum þorpið Alba og nærliggjandi sveitir, eru á heimsminjaskrá UNESCO vegna trufflusveppanna, víngerðarinnar og ostanna.
Þrúgan Nebbiolo er talin draga nafn sitt af orðinu nebbia, sem mun þýða þoka á ítölsku. Á uppskerutímanum í október er oft þétt og mikil þoka yfir Langhe-héraði. Nebbiolo er ræktuð á tæplega 6.000 hektörum lands á Ítalíu, og þar af eru rúmlega 90% í Piemonte. Eitthvað er ræktað af þrúgunni í Lombardy, þar sem hún gengur undir nafninu Chiavennasca. Þar er þrúgan að einhverju leiti notuð í gerð Franciacorta-freyðivína.
Vín sem eru gerð úr Nebbiolo eru yfirleitt nokkuð tannísk og hafa flest gott af geymslu í nokkurn tíma áður en þau fara að njóta sín að fullu.
Þó að þekktustu Nebbiolo-vínin séu áðurnefnd Barolo og Barbaresco, þá er líka hægt að gera mjög góð kaup í öðrum Nebbiolo-vínum frá Langhe, eins og vín dagsins er gott dæmi um.
Vín dagsins
Vín dagsins er gert úr þrúgum sem koma af vínekrum í Barolo og Barbaresco. Þrúgur hverrar vínekru eru gerjaðar í stáltönkum og síðar á ferlinu er ákveðið hvort þrúgurnar fari í Perbacco eða í Barolo Castiglione. Þrúgurnar frá Barbaresco-héraði fara auðvitað aðeins í vín dagsins. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja á stórum tunnum úr slavónskri eik í u.þ.b. 2 ár áður en því er tappað á flöskur.
Vietti Langhe Nebbiolo Perbacco 2018 er rúbínrautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður rauð ber, leður, pipar, vanilla, krydd og tóbak. Í munni eru stinn tannín, góð sýra, fínlegur ávöxtur og miðlungsfylling. Eik, leður, smá tóbak og örlítið berjahrat í nokkuð hrjúfu eftirbragðinu sem mýkist þegar vínið hefur fengið að anda góða stund. 91 stig. Góð kaup (3.999 kr, þarf að sérpanta). Fer vel með léttari villibráð, nautakjöti, pottréttum og góðum ostum.
Robert Parker hefur gefið þessu víni 90-93 stig undanfarinn áratug (2012 fékk reyndar „bara“ 88 stig“) en ekki er komin einkunn fyrir 2018-árganginn þegar þetta er skrifað. Wine Spectator hefur sömuleiðis yfirleitt gefið víninu 89-91 stig undanfarin ár. Notendur Vivino gefa 2018-árgangnum 4.0 stjörnur (211 umsagnir þegar þetta er skrifað) og meðaltal allra árganga eru 3.9 stjörnur.