Ogier Vacqueyras Boiseraie 2018

Vacqueyras nefnist vínhérað í suðurhluta Rónardals í Frakklandi. Vacqueyras liggur meðfram ánni Ouvese, rétt fyrir sunnan héraðið Gigondas sem löngum hefur verið nefnt litili bróðir Chateauneuf-du-Pape. Vacqueyras hefur hins vegar fengið viðurnefnið Chateauneuf-du-Pape fátæka mannsins. Á vínekrum í Vacqueyras ríkja mjög svipaðar aðstæður og í Gigondas. Líkt og í Gigondas þá er þrúgan Grenache uppistaðan í rauðvínum héraðsins (lágmarkið er 50% Grenache). Hins vegar nota víngerðarmenn í Vacqueyras yfirleitt meira af Syrah í sín vín en nágrannar þeirra í Gigondas. Aðrar rauðar þrúgur í Vacqueyras eru Mourvedre og Cinsault. Rauðvínin frá báðum héruðunum eru þó þekkt fyrir að vera kröftug frekar en fáguð. Í Vacqueyras er einnig búið til eitthvað af rósavíni og hvítvíni, en í Gigondas eru hins vegar ekki gerð nein hvítvín.

Ég hef áður fjallað um vínhús Ogier, sem rekur sögu sína til ársins 1859. Því miður eru þær allt of fáar umsagnir mínar um vínin frá þessu ágæta vínhúsi. Undanfarin áratug hið minnsta hafa ýmis vín frá Ogier fengist í vínbúðunum, en um þessar mundir eru þau fjögur – 3 rauð og 1 hvítt.

Vín dagsins

Vín dagsins er líkt og önnur vín frá Vaqueyras að mestu gert úr þrúgunni Grenache, en þar er einnig að finna Syrah og Mourvedre. Mér hefur ekki tekist að finna nánari upplýsingar um þetta vín.

Ogier Vacqueyras Boiseraie 2018 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, pipar, leður og ögn af kakó. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og fínlegur ávöxtur. Leður, plómur og krydd í ágætu og kröftugu eftirbragðinu. 89 stig. Fer vel með íslenska lambinu en hefur gott af 2-3 árum til viðbótar í kjallaranum áður en það toppar.

Wine Enthusiast gefur þessu víni 90 stig. Notendur Vivino gefa víninu 3.9 stjörnur (aðeins 26 umsagnir þegar þetta er skrifað). Fyrri árgangar hafa verið að fá 89-91 stig hjá Robert Parker.

Ogier Vacqueyras Boiseraie 2018
Ogier Vacqueyras Boiseraie 2018 steinliggur með íslenska lambinu en hefur gott af 2-3 árum til viðbótar í kjallaranum áður en það toppar.
4
89 stig

Vinir á Facebook