Góð freyðivín koma ekki bara frá Champagne. Spánverjar eru þekktir fyrir freyðivínin sín sem kallast Cava. Cava er framleitt á sama hátt og kampavín, þ.e. með seinni gerjun sem á sér stað í flöskunni. Þrúgurnar sem notaðar eru í Cava eru einkum Macabeu, Parellada og Xarel-lo. Stundum eru Chardonnay, Pinot Noir, Monastrell og Garnacha notaðar í einhverju magni (tvö þau síðastnefndu gefa rauða litinn í rósa-Cava). Macabeu, sem í Rioja-héraði kallast Viura, er nokkuð hlutlaus þrúga en Parellada færir víninu snarpa sýru og sítrusbragð, en Xarel-lo gefur blómlegan ilm, perur og melónur.
Stærstur hluti Cava-framleiðslunnar er í héraðinu Penedes í nágrenni Barcelona, og meðfram Ebro í Rioja-héraði. Flest Cava eru án árgangs og því nánast eins frá ári til árs. Við gerð árgangs-Cava er frekar notast við Chardonnay og Pinot Noir, líkt og í Champagne, því þau eldast betur en hefðbundin Cava.
Vín dagsins
Vín dagsins er flaggskipið í Cava-línu Marques de la Concordia. Vínið er gert úr þrúgunum Xarel·lo, Macabeu, Parellada og Chardonnay. Vínið hefur fengið að hvíla í flöskunni í 38 mánuði.
Marques de la Concordia Cava Gran Reserva Brut Nature 2012 er strágult og fallegt í glasi, með fínlegum loftbólum. Í nefinu finnur maður sítrusávexti, græn epli, ger og möndlur, ásamt vott af steinolíu. Í munni er vínið þurrt, með frísklega sýru og góðan ávöxt. Freyðir fínlega í munni. Epli, greipaldin, möndlur, brioche brauð og vottur af hunangi í góðu eftirbragðinu. 89 stig. Góð kaup (4.964 kr). Ljómandi gott Cava sem er líklega eitt besta Cava sem fæst í vínbúðunum um þessar mundir (reyndar líka það dýrasta). Fer vel með skelfiski hvers konar ásamt fiskréttum og jafnvel ljósu fuglakjöti, en sómir sér vel eitt og sér. Nýtur sín vel nú og næstu 2-3 árin en sennilega ekki mikið lengur en svo. Sýnishorn frá innflytjanda.
Wine Spectator gefur 86 stig. Notendur Vivino gefa 4,2 stjörnur (69 umsagnir þegar þetta er skrifað) . Wine Enthusiast gefur víninu 89 stig.