Nýársuppgjör Vínsíðunnar – Vín ársins 2020

Þá er 23. starfsár Vínsíðunnar á enda, og ég held mér sé óhætt að segja að þetta ár skeri sig frá flestum öðrum. Þar sem við hjónin erum bæði heilbrigðisstarfsmenn lokuðum við okkur af í okkar litlu kúlu á meðan kófið gekk yfir, líkt og svo margir aðrir landsmenn. Því fylgdu auðvitað ýmsar raskanir, þar á meðal í vínsmökkunum, sem urðu í færri kantinum í ár. Ég hef lítið falast eftir sýnishornum frá birgjum og að mestu notið vína úr mínum eigin kæli eða kælum félaga í kúlunni okkar. Alls telst mér til að ég hafi náð að hafa skoðun á 114 vínum í ár og úr þeim hópi ætla ég að velja Vín ársins 2020 á Vínsíðunni.

Freyðivín

Árið byrjaði með látum þegar Vínklúbburinn hélt kampavínsfund í ársbyrjun, og þar smökkuðum við 17 mismunandi freyðivín (ef ég man rétt). Flest voru það kampavín en einnig læddust inn Cava og Crémant. Skiljanlega fer lítið fyrir skrásetningu í svona fagnaði… Þó að ég hafi nú smakkað nokkur freyðivín á þessu ári þá er aðeins ein freyðivínsumsögn á Vínsíðunni í ár og ljóst að hér er tilefni til úrbóta á nýju ári!

Hvítvín

Þó að hvítvín séu orðin algengari í mínum glösum en þau voru hér áður fyrr, þá eru ekki nema 20 dómar um hvítvín sem liggja fyrir í árslok og aðeins helmingurinn sem rataði inn á Vínsíðuna í hefðbundinni umsögn. Hér er auðvitað aðeins um að kenna leti ritstjórans og vonandi fá þessi vín sinn stað á nýju ári. Hins vegar var oftast um að ræða sömu hvítvínin hjá mér þetta árið, því ég keypti nokkrum sinnum kassa af hvítvínum frá Rhone og það fór einfaldlega lítið fyrir öðrum hvítvínum þetta árið.

Besta hvítvínið sem ég smakkaði á árinu er án efa Markus Molitor Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016 sem fékk 96 stig hjá mér og 5 stjörnur. Ekki langt undan voru nokkur af Rónarvínunum, þar á meðal Clos de l’Oratoire des Papes Châteauneuf-du-Pape Blanc 2016 sem fékk 92 stig og 4,5 stjörnur. Önnur hvítvín sem stóðu sig vel (og eru á viðráðanlegra verði) eru Sauvignon Blanc frá Marlborough á Nýja-Sjálandi – Tiki Estate Sauvignon Blanc 2019 (90 stig – 4,5 stjörnur) og Matua Sauvignon Blanc 2019 (89 stig – 4 stjörnur). Bæði þessi vín kosta aðeins 2.699 krónur og því frábær kaup í þeim báðum.

Rauðvín

Mér telst til að ég hafi tjáð mig um 92 mismunandi rauðvín í ár, þó aðeins hluti þeirra hafi ratað inn á Vínsíðuna (sjá afsakanir hér að ofan). Mörg af þessum vínum eru ekki fáanleg í vínbúðunum og því kannski ekki jafn mikilvægt að þau fái sitt pláss hér á Vínsíðunni (nema ef það skyldi verða til þess að einhver birginn taki þau til sölu í vínbúðunum…).

Það er erfiðara að velja besta rauðvínið sem ég smakkaði á þessu ári. Domaine du Vieux Télégraphe Châteauneuf-du-Pape (La Crau) hefur verið reglulega á topp 100-lista Wine Spectator og 2016-árgangurinn líklega eitt besta Châteauneuf-du-Pape sem ég hef smakkað. Numanthia 2004 frá Toro-héraði á Spáni er stórkostlegt vín sem ég prófaði loksins í sumar og það fer líka í hóp þeirra bestu sem ég hef smakkað.

En ég prófaði líka nokkur frábær vín sem eru fáanleg í vínbúðunum. Marques de la Concordia Vendimia Seleccionada Para Guarda 2016 er frábært vín sem fékk 95 stig og 5 stjörnur hjá mér (6.998 kr í vínbúðunum). Þá er 2016-árgangurinn af Isole e Olena Cepparello einn sá besti þegar þetta vín á í hlut – 95 stig og 5 stjörnur (7.990 kr í vínbúðunum). Svo voru líka rauðvín á „viðráðanlegu“ verði sem ég gaf 5 stjörnur. Sömuleiðis sló Matsu El Viejo 2017 frá Toro í gegn hjá mér – 93 stig og 5 stjörnur, kostar 4.880 krónur. Alls gaf ég 13 rauðvínum 5 stjörnur á árinu og helming þeirra er hægt að nálgast í vínbúðunum.

Bestu kaupin í rauðvínum í ár var þó sennilega litli bróðir El Viejo – Matsu El Picaro 2016, sem fékk 89 stig hjá mér og 4 stjörnur, en kostar ekki nema. 2.490 krónur, sem eru að mínu mati reyfarakaup. Nú er reyndar kominn annar árgangur í vínbúðirnar sem ég á eftir að prófa. Önnur frábær kaup eru svo Montecillo Crianza 2016, sem kostar ekki nema 2.199 krónur (87 stig, 4 stjörnur), og svo auðvitað Montecillo Reserva 2015 sem Wine Spectator setti í 25. sæti yfir vín ársins og gaf 92 stig (2.799 krónur) – verst að ég á eftir að smakka það. Þá kemst Gerard Bertrand Minervois Syrah Carignan 2016 líka ofarlega á listann yfir bestu kaupin (2.799 krónur) – 90 stig og 4 stjörnur.

Vín ársins 2020

Það er alltaf ákveðinn höfuðverkur að velja vín ársins. Taka þarf tillit til verðs, gæða og aðgengis. Eins og áður segir var árið í ár nokkuð sérstakt sem m.a. sést á því að aðeins ríflega helmingur þeirra vína sem ég smakkaði á árinu fæst ekki í vínbúðunum. Af þeim vínum sem ég smakkaði og eru fáanlegar hérlendis þá tel ég að Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra 2017 hafi skarað fram úr hinum í áðurnefndum atriðum – verð, gæða og aðgengis – og er því vín ársins 2020 á Vínsíðunni. Þetta vín kom skemmtilega á óvart, og það kostar ekki nema 3.999 krónur – 93 stig og 5 stjörnur (það hefur reyndar hækkað um 200 krónur frá því að ég smakkaði það í apríl).

Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra 2017 er vín ársins 2020 á Vínsíðunni.

Concha y Toro Marques de Casa Concha Etiqueta Negra 2017 er kirsuberjarautt á lit, með sæmileg dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, pipar, leður, blýantur, sólber og ögn af anís. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Bláber, leður, pipar, tóbak og kakó í flottu eftirbragðinu. Vínið steinliggur með grillaðri nautasteik! Fer líka vel með villibráð og íslenska lambinu. 93 stig. Frábær kaup (3.999 kr)

James Suckling gefur þessu víni 93 stig. Robert Parker gefur 91 stig og Wine Spectator gefur 94 stig. Notendur Vivino.com gefa því 4,2 stjörnur (2504 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur 4,5 stjörnur (Frábær kaup) og sömu einkunn gefur Steingrímur í Vinotek.is.

Vinir á Facebook