Þeir voru ekki margir fundirnir hjá Vínklúbbnum né Smíðaklúbbnum í ár, eins og gefur að skilja. Það hafði óneitanlega áhrif á vínsmakkanir ársins, því það sem smakkað er á þessum fundum er dágóður hluti þess sem ég smakka á hverju ári.
Þegar fyrsta bylgjan var að mestu yfirstaðin í lok maí náði Smíðaklúbburinn þó að halda einn fund, sem var í dýrari kantinum. Kristófer töfraði fram þríréttaða máltíð og það voru sérvalin vín í boði. Með forréttinum drukkum við hvítt Clos de l’Oratoire des Papes Chateauneuf-du-Pape, sem vakti mikla lukku. Með kjötinu prófuðum við 2 mismunandi Cabernet Sauvignon frá Kaliforniu og með eftirréttinum fengum við Markus Molitor Zeltinger Himmelreich Riesling Auslese** (Green Cap) 2016.
Vín dagsins
Kendall-Jackson Jackson Estate Cabernet Sauvignon Hawkeye Mountain 2013 er frá Alexander Valley í Sonoma-sýslu. Að lokinni gerjun fékk það að liggja á frönskum eikartunnum (helmingurinn nýjar tunnur) í rúma 20 mánuðiÞað er dökk-kirsuberjarautt á lit með góða dýpt og sýnir smá þroska. í nefinu er klassískur ilmur af amerískum cabernet sauvignon – sólber, vanilla, plómur, leður, kirsuber og smá anís. Í munni eru góð tannín, fín sýra og flottur ávöxtur. Þá koma sólberin, plómurnar og vanillan vel fram í eftirbragðinu, ásamt ljúfum eikartónum og smá súkkulaði. 93 stig. Ágæt kaup (7.998 kr). Fer með með alvöru steikum – villibráð og nauti, en getur líka notið sín með lambinu. Á eflaust 10 góð ár eftir.
Wine Spectator gefur þessu víni 93 stig. Notendur Vivino gefa 4.1 stjörnu (66 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur 93 stig.