G.D. Vajra Langhe Nebbiolo 2018

Vínhús G.D. Vajra var eitt af fyrstu vínhúsunum í Piemonte til að taka upp lífræna vínrækt og það árið 1971! Nú þykir orðið sjálfsagt að vínræktarferlið sé eins lífrænt og hægt er þó svo að framleiðsluferlið sé kannski ekki lífrænt að öllu leyti.

Ég hef áður fjallað um vín frá G.D. Vajra – bæði Barbera d’Alba og Barolo – en hef ekki skrifað um þennan ágæta Nebbiolo fyrr en núna. Hér er auðvitað á ferðinni hreint Nebbiolo – sama þrúga og notuð er í Barolo. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja í stáltönkum í 8-14 mánuði (fer eftir árferði) og það kemur fyrir að hluti þess sé settur í tunnur úr hlutlausri eik (væntanlega slavónsk eik).

G.D. Vajra Langhe Nebbiolo 2018 er fallega rúbínrautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður pipar, leður, fjólur, rósir, plómur og ögn af lakkrís. Í munni eru hrjúf tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Rauð ber, plómur, pipar, smá leður og krydd í ljúfu eftirbragðinu. Vínið fer vel með bæði góðum steikum sem einfaldari pastaréttum, s.s. Cacciatore. 91 stig. Góð kaup (3.690 kr).

G.D. Vajra Langhe Nebbiolo 2018
G.D. Vajra Langhe Nebbiolo 2018 fer vel með bæði góðum steikum sem einfaldari pastaréttum.
4.5
91 stig.

Vinir á Facebook