Þrúgan Bobal er ekkert sérstaklega algeng í spænskri víngerð, myndi maður halda, ef undan er skilið héraðið Utiel-Requena í Valencia. Þar er þrúgan sú algengasta af rauðum þrúgum héraðsins, eða um 80%. Þá er hún einnig algeng í Valencia, Albacete og Cuenca. Samt er það svo að Bobal er næst algengasta rauða þrúgan á Spáni, þar sem hún er ræktuð á rúmlega 61 þúsund hektörum (Tempranillo er ræktuð á rúmlega 200 þúsund hektörum). Framleiðslan er að mestu seld á Spáni en lítill hluti hennar er farinn að rata út fyrir Spán.
Ég kynntist þessari þrúgu í fyrsta skipti fyrir 3 árum, þegar ég smakkaði Mikaela Bobal 2012. Ég smakkaði þrúguna svo aftur í fyrra, þá í blöndu með Merlot. Það er ánægjuefni að núna eru ekki minna en 6 vín úr Bobal fáanleg í vínbúðunum – 5 rauðvín og 1 rósavín – ásamt 3 til viðbótar á sérpöntunarlistanum.
Vín dagsins
Ég finn lítið um vínhús Micaela Rubio og vínin hennar. Mér tókst þó að grafa upp að það er í eigu Michaelu og eiginmanns hennar, Aurelio Garcia, sem er víngerðarmeistari Valquejigoso. Það er því ótvíræður gæðastimpill á þessi vín. Þetta vín inniheldur örlítið af Macabeo og Albillo en er að mestu leyti úr Bobal (92%). Að lokinni gerjun fékk það að liggja í 14 mánuði á tunnum.
El Reflejo di Mikaela Bobal 2017 er djúprautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu eru kirsuber, vanilla, pipar, kakó og krydd. Í munni eru góð tannín, fín sýra og flottur ávöxtur. Bláber, kirsuber, vanilla, leður og pipar í góðu eftirbragði. 91 stig. Góð kaup (3.590 kr). Fer vel með smáréttum á borð við spænska skinku, pylsur og þétta osta. Ég mæli með umhellingu a.m.k. 1 klst fyrir neyslu.
Það fer lítið fyrir þessu víni hjá vínskríbentum og fáar umsagnir á Vivino (meðaleinkunn allra árganga eru 3.8 stjörnur).