Vínhús Etienne Guigal er eitt af stóru vínhúsunum í suður-Frakklandi og samnefnari fyrir gæðavín. Vín Guigal hafa lengi verið Íslendingum vel kunn og fallið vel í kramið hjá landanum. Cote du Rhone-vínin hafa lengi verið með mest seldu rauðvínum á Íslandi og bæði hafa þau fengið Gyllta glasið.
Côte-Rôtie tilheyrir norðurhluta Rónardalsins og rauðvínin þaðan er oftast hrein Syrah-vín. Hins vegar er leyfilegt að nota í rauðvínin allt að 20% Viognier, sem er hvít þrúga! Côte-Rôtie skiptist í tvö meginsvæði Côte Brune og Côte Blonde, sem eru nefnd eftir jarðveginum á þessum svæðum.
Ég kynntist víninu sem hér um ræðir í fyrsta sinn árið 2007 og varð ákaflega hrifinn. Ég hef ekki smakkað það mjög oft eftir það en hef aðeins kynnst því betur í seinni tíð. Vínið er látið liggja í 3 ár á eikartunnum, þar af helmingurinn á nýjum tunnum. Það er að mestu úr Syrah (96%) en örlitlu Viognier (4%) hefur verið bætt í það.
E. Guigal Côte-Rôtie Brune et Blonde 2016 er dökkrúbínrautt á lit, djúpt með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, sólber, plómur, franska eik, pipar, hindber og vanillu. Í munni er stinn og mikil tannín, góð sýra og þéttur ávöxtur. Kirsuber, plómur, pipar, leður og eik í góðu eftirbragðinu. 95 stig. Góð kaup (8.998 kr). Alvöru villibráðarvín.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4.2 stjörnur (859 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 91 stig.