Í haust komu í vínbúðirnar 2 rauðvín frá vínhúsi Vietti, sem er staðsett í Piemonte á Ítalíu. Ég var svo lánsamur að smakka bæði þessi vín í september þegar Smíðaklúbburinn náði að halda örfund skömmu áður veiran fór aftur á stjá. Vietti er þekkt fyrir mjög vönduð vín og það vín sem hér er fjallað um er víst „litli“ baroloinn þeirra.
Vínið sem hér um ræðir er 100% Nebbiolo sem hefur fengið að liggja á eikartunnum í 30 mánuði fyrir blöndun og átöppun á flöskur. Þrúgurnar koma af nokkrum mismunandi vínekrum, en þeim er haldið aðskildum allan tímann – gerjun og þroskun á tunnum – alveg fram að blöndun og átöppun.
Vietti Barolo Castiglione 2016 er fallega rautt í glasi, unglegt en með góða dýpto. Í nefinu finnur maður Jarðarber, hindber, súkkulaði, leður og karamellur. Í munni eru skraufþurr tannín, flott sýra og góður ávöxtur – flott jafnvægi. Hindber, eik og tóbak í góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Þetta vín er hreinasta sælgæti! 95 stig – mjög góð kaup (8.299 kr). Vín fyrir alvöru steikur – naut og villibráð. Athugið að vínið er ennþá mjög ungt og hefur gott af umhellingu a.m.k. 1 klst. áður en það fer í glösin.
Notendur Vivino gefa þessu víni 4.1 stjörnu í einkunn (584 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 94 stig og Wine Spectator gefur því 93 stig.