Vietti Barolo Castiglione 2016

Í haust komu í vínbúðirnar 2 rauðvín frá vínhúsi Vietti, sem er staðsett í Piemonte á Ítalíu. Ég var svo lánsamur að smakka bæði þessi vín í september þegar Smíðaklúbburinn náði að halda örfund skömmu áður veiran fór aftur á stjá. Vietti er þekkt fyrir mjög vönduð vín og það vín sem hér er fjallað um er víst „litli“ baroloinn þeirra.

Vínið sem hér um ræðir er 100% Nebbiolo sem hefur fengið að liggja á eikartunnum í 30 mánuði fyrir blöndun og átöppun á flöskur. Þrúgurnar koma af nokkrum mismunandi vínekrum, en þeim er haldið aðskildum allan tímann – gerjun og þroskun á tunnum – alveg fram að blöndun og átöppun.

Vietti Barolo Castiglione 2016 er fallega rautt í glasi, unglegt en með góða dýpto. Í nefinu finnur maður Jarðarber, hindber, súkkulaði, leður og karamellur. Í munni eru skraufþurr tannín, flott sýra og góður ávöxtur – flott jafnvægi. Hindber, eik og tóbak í góðu eftirbragðinu sem heldur sér vel. Þetta vín er hreinasta sælgæti! 95 stig – mjög góð kaup (8.299 kr). Vín fyrir alvöru steikur – naut og villibráð. Athugið að vínið er ennþá mjög ungt og hefur gott af umhellingu a.m.k. 1 klst. áður en það fer í glösin.

Notendur Vivino gefa þessu víni 4.1 stjörnu í einkunn (584 umsagnir þegar þetta er skrifað). Robert Parker gefur þessu víni 94 stig og Wine Spectator gefur því 93 stig.

Vietti Barolo Castiglione 2016
Vietti Barolo Castiglione 2016 er ákaflega þétt og gott barolo sem fer vel með góðum steikum eða bara eitt og sér.
5
95 stig

Vinir á Facebook