Flestir íslenskir vínáhugamenn kannast við Chateauneuf-du-Pape – rauðvínin frá nýja kastala páfans. Ég leyfi mér þó að efast um að margir kannist við hvítvínin frá þessu héraði, enda eru þau ekki nema um 5% af vínframleiðslu héraðsins. Fyrsta hvíta Chateauneuf-du-Pape sem ég smakkaði var frá Clos de l’Oratoire des Papes, en rauðvínið þeirra hefur lengi verið fáanlegt í vínbúðunum og notið töluverðra vinsælda. Ég útnefndi líka 2010-árganginn af rauðvíninu sem vín ársins árið 2012 og ég held að ég hafi smakkað flesta árgangana síðan (þó þeir hafi ekki allir ratað inn á Vínsíðuna).
Það var því sérstakt ánægjuefni að sjá að hvítvínið frá Clos de l’Oratoire des Papes sé komið í vínbúðirnar. Ég keypti mér tvær magnum-flöskur af 2016-árgangnum á netinu sl. vetur og tók aðra þeirra með mér á vorfagnað Smíðaklúbbsins í vor, þegar óhætt var að funda.
Clos de l’Oratoire des Papes Chateauneuf-du-Pape Blanc 2016 er gert úr þrúgunum Roussanne (30%), Grenache Blanc (30%), Clairette (30%), og 10% Bourboulenc. Vínið er ljóssítrónugult á lit, með angan af sítrus, suðrænum ávöxtum og franskri eik. Í munni er vínið frísklegt með góða sýru, eik og smjör í góðu eftirbragðinu. 92 stig. Virkilega gott hvítvín en aðeins í dýrari kantinum (6.389 kr).