Tímaritið Wine Spectator tilkynnti nýlega um val sitt á víni ársins 2020. Að þessu sinni varð fyrir valinu Marqués de Murrieta Rioja Castillo Ygay Gran Reserva Especial 2010. Umsögn tímaritsins á sínum tíma var eftirfarandi: „Maturing well, this round red is a lovely example of the traditional style. Orange peel, dried cherry, forest floor, vanilla and black tea flavors mingle harmoniously over round tannins and citrusy acidity. Generous but gentle, lively, balanced and harmonious. Tempranillo and Mazuelo.“ Þetta tiltekna vín hefur ekki verið fáanlegt í vínbúðum hérlendis en það er hins vegar annað vín frá sama framleiðanda – Marques de Murrieta Rioja Reserva Finca Ygay 2015, sem ég skrifaði um í sumar.
Fæst eitthvað af þessu hér á landi?
En það eru fleiri vín á topp 100-lista Wine Spectator sem vöktu athygli mína og eru sum fáanleg hérlendis. Í 10. sætinu er t.d Bollinger Brut Champagne La Grande Année 2012. Það er væntanlega ekki komið til landsins ennþá en í vínbúðunum má nálgast 2007-árganginn af La Grande Année Rosé (18.990 kr) sem fær 95 stig hjá WS og er hreint ekki svo slæmt! Í 15. sæti er vín sem áður hefur verið í efsta sæti listans – Duckhorn Merlot Three Palms Vineyard 2017. Í vínbúðunum er hægt að sérpanta 2015-árganginn (8.972 kr) sem er reyndar ekki alveg í sama klassa og 2014 og 2017 árgangarnir.
Í 25. sæti er Montecillo Rioja Reserva 2013 (92 stig), sem er hægt að nálgast í vínbúðunum fyrir litlar 2.799 krónur. Í 35. sæti er Trimbach Riesling 2017 (91 stig), sem við erum sennilega rétt búin að missa af, því nú er 2018-árgangurinn í vínbúðunum (3.199 kr). Þetta vín hefur þó verið að gera mjög góða hluti í gegnum árin og við verðum eflaust ekki svikin af 2018-árgangnum. Í 41. sæti er Penfolds Bin 28 Kalimna Shiraz 2018 (93 stig), en hér má nálgast 2015-árganginn í vínbúðunum (4.899 kr) sem fékk 91 stig á sínum tíma. Í 47. sæti er Vietti Barbera d’Asti Trevigne 2017 (91 stig), en í vínbúðunum er núna 2018-árgangurinn (3.399 kr). Í 77. sæti er Ridge Monte Bello Santa Cruz Mountains 2017, en í vínbúðunum má fá 2015-árganginn fyrir litlar 24.567 krónur (sá árgangur fékk 93 stig).
Bestu kaup ársins?
Annar listi sem einnig er vert að skoða er samantekt WIne Spectator yfir bestu kaup ársins, þ.e. 100 vín sem kosta $25 eða minna. Þar má meðal annars finna Willm Riesling Reserve 2017 (hér fáum við 2018-árganginn fyrir 2.799 kr) og Beronia Rioja Reserva 2015 sem fær 93 stig (3.498 kr í vínbúðunum). Craggy Range Te Kahu Gimblett Gravels 2018 fær 92 stig (hér fáum við 2016-árganginn fyrir 3.978 krónur). Cune Rioja Crianza 2017 fær 91 stig, hér fáum við 2016-árganginn fyrir 2.599 krónur (sá árgangur fær 91 stig og mjög góð kaup í honum).
Það styttist svo í uppgjör ársins 2020 á Vínsíðunni og val mitt á víni ársins…