Fyrst ég er á annað borð byrjaður að tala um vínin frá Beringer þá er best að halda því áfram! Beringer framleiðir ekki bara stórkostlega lúxusvín á borð við Private Reserve-línuna. Ein af grunnlínunum er Founders’ Estate-línan. Í þessari línu eru 3 hvítvín og 4 rauðvín. Hvítvínin eru öll einnar þrúgu vín – Chardonnay, Pinot Grigio og Sauvignon Blanc. Rauðvínin eru einnig (nánast) einnar þrúgu vínin Cabernet Sauvignon, Merlot og Pinot Noir, en einnig er í línunni Dark Red Blend, sem er gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon, Merlot, Zinfandel, Syrah og Petite Sirah.
Þrjú af vínunum í Founders’ Estate-línunni eru fáanleg í vínbúðum hérlendis – hvítvínin Sauvignon Blanc og Chardonnay, og rauðvínið Cabernet Sauvignon.
Vín dagsins
Vín dagsins er gert úr hreinu Chardonnay, sem er látið liggja í 4 mánuði á notuðum tunnum úr franskri eik áður en það er sett á flöskur.
Beringer Founders’ Estate Chardonnay 2016 er ljóssítrónugult á lit, með byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður perur, epli og örlítið af suðrænum ávöxtum. Í munni er ágæt fylling með perum, eplum og örlitlum möndlum í eftirbragðinu. Fer ágætlega með fiski, ljósu fuglakjöti og risotto. 87 stig. Ágæt kaup (2.899 kr).
Notendur Vivino.com gefa þessu víni 3.7 stjörnur (1697 umsagnir þegar þetta er skrifað).