Casa Rojo MMM Macho Man Monastrell 2018

Vínhús Casa Rojo er líklega í hópi þeirra yngstu á Spáni, en engu að síður hefur hún náð ágætis byrjun og sent frá sér nokkur góð vín. Vínhúsið var stofnað árið 2009 og fyrst um sinn byggði framleiðslan á aðkeyptum þrúgum. Árið 2015 komu þeir sér hins vegar fyrir í Murcia og festu kaup á eigin vínekrum. Í dag rækta þeir Monastrell, Garnacha og Syrah á 23 hektörum lands í Murcia, en kaupa áfram þrúgur frá vínbændum annars staðar á Spáni. Í dag koma 5 vín af ekrunum í Murcia, 7 vín koma úr samstarfi við vínbændum víðs vegar af Spáni og 8 lífræn vín eru gerð undir merkinu Musso. Vínin hafa verið að fá ágætar umsagnir og vakið lukku hjá gagnrýnendum jafnt sem neytendum.

Tvö vín Casa Rojo fást í vínbúðunum – hvítvínið La Marimorena (Albarino frá Rias Baixas), sem ég get alveg mælt með, og rauðvínið Macho Man (Monastrell frá Jumilla). Þá er einnig hægt að sérpanta Cava að nafni Moltó Negre (gert úr þrúgunni Trepat).

Vín dagsins

Vín dagsins er rauðvínið Macho Man, gert úr þrúgunni Monastrell og kemur frá Jumilla-héraði, nánar tiltekið frá vínekrum Casa Rojo í La Raja. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja á frönskum eikartunnum áður en það er sett á flöskur. Ég smakkaði 2014-árganginn fyrir 3 árum og var þá mátulega hrifinn en 2018 er að standa sig betur.

Casa Rojo MMM Macho Man Monastrell 2018 er múrsteinsrautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnast plómur, lakkrís, leður, vanilla og krydd. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og þokkalegur ávöxtur. Bláber, apótekaralakkrís og krydd ráðandi í ágætu eftirbragðinu. Vínið fer vel með nauti, lambi og villibráð. Nýtur sín best á næstu 3-5 árum. 88 stig. 3.999 krónur.

Notendur Vivino gefa þessu víni 3,9 stjörnur (377 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Casa Rojo MMM Macho Man Monastrell 2018
Casa Rojo Macho Man Monastrell 2018 fer vel með nauti, lambi og villibráð. Nýtur sín best á næstu 3-5 árum.
4
88 stig

Vinir á Facebook