Vínhús Markgreifans af Murrieta á sér langa sögu eða allt aftur til ársins 1852 og er ein elsta fjölskylduvíngerðin í Rioja. Vínhúsið hefur verið brautryðjandi í Rioja og var til að mynda hið fyrsta til að flytja vín sín út fyrir landsteinana.
Vín dagsins
Víni dagsins kynntist ég fyrst í fyrra og smakkaði þá 2014-árganginn sem var vel frambærilegur. Árið 2015 var einnig mjög gott í Rioja og það kemur greinilega fram í víni dagsins. Það er gert úr þrúgunum Tempranillo (80%), Graciano (12%), Mazuelo (6%) og Garnacha (2%). Vínið var látið gerjast í stáltönkum og fékk svo að hvíla í 18 mánuði á tunnum úr amerískri eik. Murrieta framleiðir um eina milljón flöskur af þessu víni á ári hverju og Luis Gutierrez hjá Robert Parker heldur því fram að 2016-árgangurinn sé enn betri en 2015, þannig að við getum því látið okkur hlakka til að hann komi hingað í vínbúðirnar á næstunni.

Marques de Murrieta Rioja Reserva Finca Ygay 2015 er kirsuberjarautt á lit, með góða dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður kirsuber, sólber, pipar, tóbak, kakó, plómur og smá ristað brauð. Í munni eru góð tannin, góð sýra og flottur ávöxtur. Eik, vindlar, lakkris, leður og smá appelsínubörkur í flottu eftirbragðinu. Flott nautavín en steinliggur líka með lambakótilettum. 92 stig. Mjög góð kaup (3.991 kr). Endist vel næstu 5 árin eða svo
Robert Parker gefur 93 stig, Wine Spectator gefur 92 stig. Notendur Vivino.com gefa 4,1 stjörnu (4.910 umsagnir þegar þetta er skrifað). Þorri Hringsson gefur 5 stjörnur
