Domaine de Villemajou Corbières Boutenac 2017

Héraðið Languedoc Roussillon er eitt stærsta vínræktarhérað Frakklands, þar sem vínekrurnar ná yfir tæplega 3.000 ferkílómetra, sem er um þrisvar sinnum stærra en Bordeaux. Á hverju ári eru framleiddir um 1.360 milljón lítrar sem jafngildir um 1.800 milljón flöskum, sem er þriðjungur af allri vínframleiðslu í Frakklandi og um 5% af allri vínframleiðslu í heiminum!

En héraðið heitir eiginlega ekki lengur Languedoc Roussillon, heldur heitir það Occitanie frá 1. janúar 2016. Vínframleiðendur hafa þó ekki allir snúið baki við gamla nafninu, og svo hafa skilgreind AOC haldið sínum nöfnum. Alls eru 94 skilgreind AOC og IGP (Indication Géographique Protégée) í Languedoc-Roussillon, en þekktust eru Languedoc AOC, Corbières AOC, Faugères, Minervois AOC og Saint-Chinian AOC.

Corbières skiptist upp í 11 mismunandi terroirs, og þar af hefur Corbières Boutenac fengið sitt eigið AOC.

Vínhús Gerard Bertrand er íslenskum vínunnendum kunnugt, en vínekrur Bertrands eru einmitt í Languedoc Roussillon. Í Corbières Boutenac er vínhúsið Domaine de Villemajou, sem faðir Bertrands keypti árið 1970. Á vínekrum Villemajou vex gamall Carignan-vínviður sem gefur af sér mjög góðar þrúgur, sem eru uppistaðan í víni dagsins.

Vín dagsins

Eins og áður segir er það Carignan sem er uppistaðan í víni dagsins, en einnig er í því Syrah og Grenache. Vínið var látið liggja í eitt ár á eikartunnum áður en það var sett á flöskur.

Domaine de Villemajou Corbières Boutenac 2017 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður sólber, leður, plómur, ferskar kryddjurtir, hvítan pipar og ögn af negul. Í munni eru nokkuð hrjúf tannín, góð sýra og ágætur ávöxtur. Sólber, plómur, frönsk eik, vanilla, grænn pipar og apótekaralakkrís í góðu eftirbragðinu. Mjög gott matarvín og fer vel með nauti, lambi og villibráð. Góð kaup (3.498 kr). 90 stig.

Þorri Hringsson gefur þessu víni 4,5 stjörnur og notendur Vivino gefa því 4.1 stjörnu (868 umsagnir þegar þetta er skrifað).

Domaine de Villemajou Corbières Boutenac 2017
Domaine de Villemajou Corbières Boutenac 2017 er mjög gott matarvín sem fer vel með villibráð, nauti og lambi, einkum ef það hefur komið við á grillinu.
4.5
90 stig

Vinir á Facebook