Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi undanfarin ár að geta gengið að gæðunum vísum þegar spænsk vín eru annars vegar, a.m.k. í Rioja. Síðastliðin 10 ár hafa verið nokkuð góð í Rioja og þar hafa 2009, 2010 og 2012 skarað fram úr. Í Ribera del Duero þarf svo að fara um 15 ár aftur í tímann til að finna slakan árgang og það er orðið löngu tímabært hjá mér að fjalla um þau frábæru Ribera-vín sem eru fáanleg í vínbúðunum…
Við höfum þannig geta gengið fyrst að Crianza-vínunum frá Rioja fyrir ofangreinda árganga, svo komu Reserva-vínin og nú eru Gran Reserva frá þessum tíma í vínbúðunum. Nú er hægt að nálgast Crianza og Reserva frá 2015 og 2016 sem bæði voru mjög góð ár í Rioja og vínin frá þessum árgöngum eru að fá flottar umsagnir.
Mér telst til að það séu 34 mismunandi Rioja Reserva vín í vínbúðunum (þegar búið er að draga frá magnumflöskur og gjafapakka) og flest þeirra vel frambærileg vín. Um helmingur þeirra kostar undir 3.000 krónum en ef maður teygir sig upp í 3.500 krónur þá er maður yfirleitt að gera nokkuð góð kaup.
Vín dagsins

Ég hef áður fjallað um vínin frá Ramón Bilbao en ég held að það séu orðin nokkur ár síðan þau vín rötuðu inn á síðuna og því löngu tímabært að gera þeim aftur skil. Reservan frá Ramón Bilbao er að jafnaði um 90% Tempranillo og 10% Graciano og Mazuela. Að lokinni gerjun liggur vínið í 20 mánuðum á amerískum eikartunnum og svo aðra 20 mánuði á flösku áður en það fer í sölu.
Ramón Bilbao Rioja Reserva 2015 er rúbínrautt á lit með miðlungsdýpt og farið að örla á þroska. Í nefinu finnur maður leður, eik, sólber, lakkrís, vanillu og fjólur. Í munni eru miðlungstannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Lakkrís, sólber, eik og ögn af mentól í góðu eftirbragðinu. Fer vel með grillmatnum í sumar. 90 stig. Mjög góð kaup (2.899 kr).
Notendur Vivino. com gefa þessu víni 4.0 í einkunn (934 umsagnir þegar þetta er skrifað).
