#grillsumarið2020 – fullkomin svínarif

Þeir sem þekkja mig vita að mér finnst ákaflega gaman að grilla og á sumrin held ég að ég grilli a.m.k 4-5 sinnum í viku og oftar ef veður leyfir. Það sést líka á Instagramminu mínu því þar eru nær eingöngu myndir af grillinu mínu! Skemmtilegast finnst mér að gera svínarif því ég verð að viðurkenna að ég er ákaflega veikur fyrir góðum svínarifjum. Það er því kannski vel við hæfi að ein vinsælasta færslan hér á Vínsíðunni heitir „Hvernig á að elda svínarif“ sem ég skrifaði árið 2014. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég held svei mér þá að rifin mín séu enn betri í dag en þau voru þá.

Lykilatriði við eldun svínarifja er tími og það borgar sig aldrei að flýta sér með rifin. Best er að hafa allan daginn til eldamennskunnar og byrja daginn á að krydda rifin. Eftir margar tilraunir og útfærslur hef ég komist að því að besta kryddblandan (að mínu mati) er sú sem ég kynntist árið 2013 og er eftirfarandi:

  • 2 msk kóríanderfræ (má reyndar nota malaðan kóríander)
  • 1 tsk appelsínubörkur
  • 1/2 bolli púðursykur
  • 2 msk chiliduft
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • Salt og nýmalaður svartur pipar
Dijon-sinnepið er mikilvægt!

Fyrst þarf reyndar að smyrja rifin með Dijon-sinnepi! Kryddblandan síðan sett á báðum megin og rifin svo sett aftur inn í ísskáp fram að eldun. Þá er rifjunum pakkað inn í álpappír og þau hægelduð við um 130 gráður í ofni eða á grilli – athugið að ef þið ætlið að hafa þau allan tímann á grillinu þarf að fylgjast vel með hitanum allan tímann svo rifin brenni ekki, snúa rifjunum reglulega og það þarf að pakka þeim vel inn svo að safinn leki ekki út (gæti kviknað í honum).

Í lokin þarf auðvitað að pensla rifin og grilla. Best finnst mér að gera eigin grillsósu sem er nokkurn vegin á þessa lund:

  • 1-2 skalottulaukar – eftir stærð – smátt skornir
  • 1 dL eplaedik
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 1-2 msk reykt paprika – eftir smekk
  • 1 dL púðursykur
  • 1 msk Worchestershiresósa

Laukurinn mýktur í smá olíu og svo er öllu hinu blandað saman við og þetta er látið malla í góðan hálftíma þannig að sósan fari að þykkna.

Gætið þess þegar þið takið rifin úr álpappírnum að þau verða orðin mjög laus á beinunum. Penslið rifin báðum megin með grillsósunni og grillið í stuttan tíma á miðlungs heitu grilli. Ef grillið er mjög heitt er hætt við að sósan geti brunnið.

Það er fátt sem stenst samanburð við þessi rif á grillinu!

Með þessu er auðvitað klassískt að bera fram heimagert hrásalat og franskar, ásamt grillsósunni. Mér finnst við hæfi að drekka Crianza eða Carmenere með þessu, eða jafnvel góðan bjór.

Vín dagsins

Vín dagsins er hvorki Crianza né Carmenere, en það gengur hins vegar alveg ljómandi vel með svínarifjum! Þetta vín kemur frá Emporda-héraði sem er í Katalóníu og þetta mun vera þriðji árgangurinn 5 Finques sem ég fjalla um hér á Vínsíðunni – áður hef ég prófað 2011 og 2013 árgangana. Nafnið 5 Finques vísar til þess að þrúgurnar koma af 5 vínekrum – Pont de Molins, La Garriga, Espolla, Malaveina og Garbet. Þrúgurnar eru Garnatxa (26%), Cabernet Sauvignon (24%), Merlot (21%), Syrah (16%), Samsó (9%), Monastrell (3%) og Cabernet Franc (1%). Vínið flokkast sem reserva og hefur fengið að liggja í 18 mánuði á tunnum úr franskri og amerískri eik og svo í 18 mánuði á flöskum áður en það fer í sölu.

Castello Perelada 5 Finques Reserva 2015 er dökkrúbinrautt á lit, unglegt með ágæta dýpt. Í nefinu eru plómur, leður, eik, vanilla, sólber og krydd. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Vínið er aðeins hrjúft, með leður, tóbak, vanillu og súkkulaði í eftirbragðinu. Mjög góð kaup (3.333 kr). 90 stig. Fer mjög vel með grilluðu nautakjöti og auðvitað svínarifjum!

Notendur Vivino.com gefa þessu víni 4.0 stjörnur (2.152 umsagnir þegar þetta er skrifað).

#grillsumarið2020 – fullkomin svínarif
Fer einstaklega vel með grilluðu nautakjöti og svínarifjum!
4.5
90 stig

Vinir á Facebook