Flestir kannast við vínin frá Faustino, einkum Gran Reserva-vínið sem hefur verið í hillum vínbúðanna nánast svo lengi sem elstu menn muna (vörunúmer 122). Það er svo sem ekki að ástæðulausu að nafn Faustino sé samnefnari yfir góð Rioja-vín hér á landi líkt og víða annars staðar, því Faustino I er mest selda Rioja Gran Reserva í heiminum.
Saga Faustino nær aftur til ársins 1861 þegar Eleuterio Martinez Arzok keypti vínekrur Marques del Pierto. Vínekrur fyrirtækisins fóru illa út úr Phylloxera-faraldrinum en Arzok og sonur hans Faustino gróðursettu nýjan vínvið og nútímavæddu framleiðsluna. Þannig var Faustino fyrsta vínhúsið sem annaðist átöppun á eigin víni á flöskur. Það var þó ekki fyrr en árið 1960 að barnabarn Arzok, Julio Faustino Martinez, breytti heiti fyrirtækisins í Faustino og hóf útflutning á vínum Faustino. Faustino er í dag eitt stærsta vínhúsið í Rioja og vínekrur fyrirtækisins ná yfir rúma 650 hektara.
Útlit Gran Reserva-flöskunnar er nokkuð sérstakt – sandblásið, dökkt gler og flöskumiðanum er gamalt málverk (reyndar eftir Rembrandt) nánar tiltekið af hollenska ullarkaupmanninum Nicolaas van Bambeeck. Utan um flöskuna er svo gyllt net, sem lengi vel var nokkurs konar innsigli sem vandaðir víngerðarmenn á Spáni settu á flöskur sínar til að koma í veg fyrir vörusvik.
Bodega Faustino framleiðir í dag fjölmörg mismunandi vín – rauðvín, hvítvín, rósavín og Cava – í mismunandi vörulínum. Vörulínurnar bera rómverska tölustafi þar sem bestu vínin eru nr. I, miðlínan er nr. V og neðsta línan nr. VII. Faustino I er s.k. Primero-vín, þ.e.a.s. það er aðeins búið til í góðum árgangi (þess vegna kom ekkert vín árin 1997, 2002 og 2003, svo dæmi séu nefnd – það því nokkuð skondið að sjá allmargar einkunnir á Vivino um árganga sem aldrei voru framleiddir). Sá árgangur sem er í hillum vínbúðanna í dag er frá árinu 2006.
Vín dagsins
Vín dagsins er nokkuð sérstakt, því hér er um að ræða vín sem gert var í tilefnin af 75 ára afmæli Julio Faustino Martinez.
Bodegas Faustino I Reserva 2008 75th Aniversario er rúbínrautt á lit, með góða dýpt og kominn nokkur þroski. Í nefinu eru rósir, fjólur, leður, eik, vanilla og pipar. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og mildur ávöxtur. Plómur, tóbak, eik, pipar og leður í góðu eftirbragðinu. Fer vel með grilluðu nauti og lambi. 92 stig.
Notendur Vivino.com gefa þessu víni 4,2 stjörnur (70 umsagnir).