Það er alltaf gaman að drekka gott Amarone, og skömmu fyrir áramót fórum við í matarboð þar sem við drukkum tvö mismunandi Amarone – eitt frá Tommasi og eitt frá Allegrini, sem er einmitt vin dagsins. Amarone-vín eru um margt sérstök og ég fjallaði nýlega um þessi vín í pistli sem lesa má hér.
Vínhús Allegrini rekur sögu sína aftur á 16. öld, ef marka má heimasíðu fyrirtæksins, en það var hins vegar Giovanni Allegrini sem byggði fyrirtækið upp i núverandi mynd og kom því á þann stall sem það er í dag. Þegar hann lést árið 1983 tók sonur hans Franco við víngerðinni og stýrir henni enn í dag. Það er knattspyrnumaðurinn góðkunni Emil Hallfreðsson sem flytur inn vín frá Allegrini en hann ku vera í góðu vinfengi við Allegrini-fjölskylduna. Alls eru nu 11 vín frá Allegrini fáanleg í verslunum Vínbúðanna, þar af 2 Amarone-vín, þar af 3 sem koma frá Corte Giara-verkefninu.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá vínhúsi Corte Giara, sem er samstarfsverkefni Allegrini og nokkura vínbænda í Valpolicella. Það er gert úr þrúgunum Corvina (70%) og Rondinella (30%) og er að lokinni gerjun látið liggja í 15 mánuði á tunnum úr slavónskri eik (helmingurinn i nýjum, stórum tunnum – helmingurinn í litlum, notuðum tunnum), og það er svo látið liggja í 6 mánuði til viðbótar á flöskum áður en það fer í sölu.
Allegrini Corte Giara Amarone della Valpolicella La Groletta 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu eru kirsuber, plómur, rúsínur, appelsínubörkur, pipar, súkkulaði og kryddjurtir. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Rúsínur, plómur, súkkulaði og smá tóbak. í góðu eftirbragðinu. Fer vel með góðum steikum og þroskuðum ostum. 91 stig. Ágæt kaup (4.990 kr).
Notendur vivino.com gefa þessu víni 4.1 stjörnur (985 umsagnir þegar þetta er skrifað) og meðaleinkunn allra árganga eru 4.2 stjörnur.