Amaronevín eru – þegar best lætur – stórkostleg vín og góður vínkjallari (eða vínkælir) telst varla fullskipaður ef þar er ekki að finna nokkrar flöskur af góðu Amarone. Amaronevín koma frá Valpolicella á norður-Ítalíu, en Valpolicella tilheyrir Veneto-héraði. Valpolicella skiptist í 3 svæði sem kallast Classico, Valpantena og Est. Flest Amaronevín koma frá Classico en einnig er hægt að finna Amarone frá hinum héruðunum.
Þessi vín eru um margt frábrugðin öðrum vínum, einkum hvað varðar framleiðsluferlið. Í Amarone er leyfilegt að nota 4 þrúgur – Corvina, Corvinone, Rondinella og Molinara. Yfirleitt er Corvina í mestu magni, eða frá helmingi og upp í allt að 95% þrúganna. Corvinone er sjaldgæf þrúga, náskyld Corvina, sem yfirleitt er aðeins að finna í betri Amaronevínum. Molinara er minnst notuð af þessum þrúgum, því hún hefur frekar hátt sýruinnihald sem þykir ekki allt of æskilegt í Amarone.
Reglur um gerð Amaronevína kveða á um að þrúgurnar eigi að vera handtíndar af vínviðnum. Síðan á að þurrka þær þannig að þær missi um 40% af vökvainnihaldinu (þetta þurrkferli kallast appassimento). Að lokinni þurrkun eru þrúgurnar pressaðar og safinn er að lokum gerjaður. Gerjunarferlið sjálft er óvenjulangt, eða allt að 35-50 dagar. Að lokinni gerjun eru vínin sett á tunnur og látin þroskast á eikartunnum, yfirleitt úr franskri eða slavónskri eik. Venjulegt Amarone þarf að fá að þroskast í minnst 2 ár, en Amarone Riserva þarf að þroskar í minnst 4 ár. Margir framleiðendur leyfa vínum sínum hins vegar að hvílast mun lengur en svo, því vínin þurfa oft 10-15 ár til að ná hátindi sínum og þau bestu geta elst miklu lengur en það. Þar sem að safinn úr þurrkuðum þrúgunum inniheldur meiri sykur en safi sem pressaður hefur verið úr óþurrkuðum þrúgum, þá innihalda Amarone-vín oftast talsvert af sykri sem ekki hefur náð að gerjast. Þessi umframsykur vegur upp á móti sýruinnihaldi vínanna og gefur þeim fyllingu, en Amarone-vín eru þó sjaldnast sæt á bragðið.
Nútímalegri framleiðendur eru reyndar farnir að þurrka þrúgurnar í þurrkskápum í stað þess að láta þrúgurnar liggja á strámottum uppi á háalofti. Þá nota þeir oft aðrar þrúgur á borð við Cabernet Sauvignon, Merlot og Sangiovese (það má nota allt að 25% af öðrum þrúgum en þeim sem voru nefndar hér fyrr í greininni). Þessi vín eru tilbúin mun fyrr en hefðbundin Amarone, en þau eldast hins vegar ekki jafn vel, stundum ekki nema 8-10 ár.
Pressaðar þrúgurnar eru svo oft notaðar aftur og þeim blandað út í Valpolicella-vín til að gefa þeim meiri fyllingu og sykur þannig að þau geta gerjast aðeins lengur og fengið hærra áfengismagn. Slík vín kallast Ripasso.
Öll Amarone, einkum þau yngri, hafa gott að góðri umhellingu og að fá að standa í 2-3 tíma í karöflunni áður en þeirra er neytt.