Matsu El Picaro 2016

Víngerð í héraðinu Toro á Spáni á sér langa sögu, eða í meira 1000 ár. Toro er í norðvesturhluta Spánar og tilheyrir Castilla y León. Douro-áin rennur í gegnum héraðið á leið sinni til Portúgal og út í Atlanthafið. Jarðvegurinn er sendinn og næringarsnauður og vínviðurinn þarna þarf að hafa mikið fyrir að ná sér í næringu. Þessar aðstæður gerðu það að verkum að rótarlúsin náði aldrei fótfestu í Toro, á meðan hún lagði flestar vínekrur í Evrópu í rúst. Víngerð í Toro stóð þá í blóma og mikið af víni var flutt til Frakklands á meðan Frakkar (og aðrar þjóðir) voru að endurreisa vínekrur sínar. Vínviður frá Toro var einnig fluttur annarra vínhéraða Spánar. Vínekrur í Toro eru margar hverjar mjög gamlar og vínviðarplönturnar sumar hverjar meira en aldargamlar. Þrátt fyrir þetta hlaut Toro ekki skilgreininguna Denominación de origen (DOP) fyrr en árið 1987. DOP er gæða- og upprunavottun spænskra landbúnaðarafurða á borð við vín, skinkur, osta og ólífuolíur.

Vínhús Matsu er hluti stærra fyrirtækis – Vintae – sem á nokkur vínhús á Spáni, þar á meðal Lopez de Haro, en þeirra vín eru einnig fáanleg í vínbúðunum. Heitið Matsu mun vera af japönskum uppruna og þýðir að bíða, en það vísar til þeirrar þolinmæði og tíma sem lagður hefur verið í vínekrurnar, sem margar hverjar eru áratugagamlar og elsti vínviðurinn frá 19. öld, eins og áður segir.

Vín dagsins

Vín dagsins er gert úr 100% Tinto de Toro, en svo nefnist Tempranillo-þrúgan í Toro. Að lokinni gerjun er vínið látið liggja með hýði og hrati í 3 mánuði í steyptum tönkum, en að því loknu er því tappað á flöskur. Það er ekki ætlað til langrar geymslu heldur á það að vera tilbúið til neyslu svona ungt.

Matsu El Picaro 2016 er fjólurautt á lit, unglegt með þokkalega dýpt. Í nefinu eru leður, sólber, plómur og smá lakkrís. Í munni eru stinn tannín, rífleg sýra og ágætur ávöxtur. Miðlungs fylling. Kirsuber, brómber, pipar og smá tóbak í góðu eftirbragðinu. Ágætis vín sem fer vel með nautakjöti, léttari villibráð og grillmat. 89 stig. Mjög góð kaup (2.490 kr).

Þetta vín hefur verið að fá 86-90 stig hjá Robert Parker (2016-árgangurinn hefur þó ekki fengið umsögn). Steingrímur í Vinotek gefur 2017-árgangnum 4, 5 stjörnur.

Matsu El Picaro 2016
Ágætis vín sem fer vel með nautakjöti, léttari villibráð og grillmat. 88 stig. Mjög góð kaup.
4
89 stig

Vinir á Facebook