Kaiken Terroir Series Cabernet Sauvignon 2016

Vínhús Kaiken er staðsett í þekktasta vínræktarhéraði Argentínu, Mendoza. Vínhúsið er í eigu Montes-fjölskyldunner frá Chile og nafnið Kaiken mun vera dregið af heiti gæsastofns sem heitir Caiquén. Gæsir þessar fljúga einmitt yfir Andesfjöllin, milli Chile og Argentínu, líkt og stofnandinn Aurelio Montes þurfti að gera þegar hann var að leita að heppilegu vínræktarsvæði fyrir Montes. Að lokum fann hann auðvitað þessar fínu vínekrur í Mendoza-héraði og vínin frá Kaiken hafa verið að fá fína dóma hjá gagnrýnendum.

Vín dagsins

Líkt og inngangurinn gefur til kynna, þá kemur vín dagsins frá Mendoza-héraði í Argentínu. Hér er um að ræða vín gert úr þrúgunum Cabernet Sauvignon (80%), Malbec (15%) og Petit Verdot (5%). Að lokinni gerjun var vínið látið liggja á nýjum og notuðum tunnum úr franskri eik (1/3 nýjar tunnur, 2/3 notaðar tunnur)

Þetta ágæta rauðvín frá Argentínu fer með með nautakjöti, lambakjöti, grillmat og góðum ostum. Hefur gott af hraustlegri umhellingu hálftíma fyrir neyslu.

Kaiken Terroir Series Cabernet Sauvignon 2016 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með miðlungsdýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, plómur, krydd, dökkt súkkulaði, kaffitóna og smá lyng í lokin. Í munni eru ágæt tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Bláber, kirsuber, krydd og fínlegir eikartónar í ágætu eftirbragðinu. 89 stig. Góð kaup (2.499 kr). Fer með með nautakjöti, lambakjöti, grillmat og góðum ostum. Hefur gott af hraustlegri umhellingu hálftíma fyrir neyslu. – Sýnishorn frá innflytjanda.

Steingrímur í Vinotek.is gefur þessu víni 4 stjörnur. Wine Spectator gefur 2015-árgangnum 89 stig.

Kaiken Terroir Series Cabernet Sauvignon 2016
4
89 stig

Vinir á Facebook