Symington-fjölskyldan hefur stundað víngerð í Portúgal í rúmlega 130 ár og er þekktust fyrir framúrskarandi púrtvín. Fjölskyldan hefur þó framleitt hefðbundin rauðvín og árið 1999 hófst samstarf milli Symington og Pratt-fjölskyldunnar. Fyrsta vínið sem kom úr þessu samstarfi var Chryseia, árgangur 2000. Chryseia var fyrsta portúgalska vínið, sem ekki er styrkt vín, til að komast á topp 100-lista Wine Spectator, og 2011-árgangurinn lenti í 3. sæti árið 2014. Ekkert annað Douro-vín hefur komist jafn hátt á listanum. Þrúgurnar koma frá vínekrum Quinte do Roriz, og Chryseia er blandað úr Touriga Nacional og Touriga Franca. 2015-árgangurinn var látinn liggja í 15 mánuði á nýjum tunnum úr franskri eik.
Chryseia Douro 2015 er dökkrautt á lit, unglegt með mikla dýpt og fallegt í glasi. Í nefinu finnur maður pipar, leður, plómur, brómber og dökkt súkkulaði. Í munni eru stinn tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, kirsuber, tóbak og kakó í löngu og þéttu eftirbragðinu. 96 stig. Frábært vín (6.998 kr). Endist vel næstu 15-20 árin.
Robert Parker gefur þessu víni 94 stig og Wine Spectator gefur 93 stig.