Ég hef í nokkuð langan tíma verið mjög hrifinn af spænskum vínum eins og glögglega má sjá með því að skauta yfir efni Vínsíðunnar undanfarin ár. Vín frá Suður-Frakklandi hafa þó einnig verið í nokkru uppáhaldi hjá mér og sama má segja um framleiðandann sem hér um ræðir. Vínin frá Gerard Bertrand hafa líka verið í uppáhaldi hjá íslenskum vínunnendum og skyldi engan undra. Nafn vínsins sem hér er fjallað um vísar til þess að vínekrurnar voru eitt sinn í eigu munkareglu sem rak sjúkraskýli í Narbonne.
Vínið sem hér er til umfjöllunar er gert úr hinni klassísku GSM-blöndu – Grenache, Syrah og Mourvedre. Við það má svo bæta að framleiðsluferlið er allt lífrænt.
Gerard Bertrand Chateau L’Hospitalet La Clape La Reserve 2017 er kirsuberjarautt á lit, unglegt og með góða dýpt. Í nefinu finnur maður kirsuber, lyng, pipar, rósir og smá útihús. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og fínn ávöxtur. Leður, plómur, frönsk eik og pipar ráðandi í ágætu eftirbragðinu. 90 stig. Ágæt kaup (3.199 kr). Fer vel með flestu rauðu kjöti og grillmat, ostum eða bara eitt og sér.
Vínið fékk Gyllta Glasið 2019.