Antinori Brunello di Montalcino Pian Delle Vigne 2013

Flest þekkjum við Toscanavínin og þau hafa löngum runnið ljúflega niður hjá Íslendingum. Samt læðist að mér sá grunur að ekki jafn margir þekki vínin sem kennd eru við Brunello di Montalcino. Þau koma af vínekrum sem liggja umhverfis þorpið Montalcino. Heitið Brunello vísar til þess að þrúgan sem vínið er gert úr (Sangiovese) var áður nefnd Brunello. Ég skrifaði stuttan pistil um þetta í þessari færslu. Vínin frá þessu héraði eru sum hver á meðal þeirra bestu sem koma frá Ítalíu.

Nafn Antinori fjölskyldunnar þarf hins vegar varla að kynna fyrir vínáhugamönnum, enda er fjölskyldan ein sú þekktasta í bransanum.

Antinori Brunello di Montalcino Pian Delle Vigne 2013 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska og ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður einkum kirsuber, pipar, plómur og leður. Í munni eru mjúk tannín, góð sýra og flottur ávöxtur. Leður, plómur, kirsuber og tóbak í góðu eftirbragðinu. Líklega hef ég opnað vínið aðeins of snemma og það nýtur sín ekki til fullnustu. 90 stig. Kostar 6.599 kr í Fríhöfninni.

Þetta vín fær 93 hjá Wine Spectator og 92 hjá Robert Parker.

Antinori Brunello di Montalcino Pian Delle Vigne 2013
4
90 stig

Vinir á Facebook