Ég fjallaði nýlega um Crianza frá Vínhúsi Baigorri – ákaflega vel heppnað vín og góð kaup í því. Vínhúsið sjálft þykir ákaflega fallega hannað og ef þið eigið leið um Rioja-hérað (þangað eiga allir vínunnendur að koma einhvern tíma á ævinni) þá ættuð þið endilega að kíkja þangað. Nú er komið að því að fjalla um Reserva-vínið frá þessari ágætu víngerð, sem því miður er ekki að finna í Vínbúðunum þegar þetta er skrifað.
Vín dagsins

Baigorri Rioja Reserva 2011 er djúprautt á lit, unglegt en þó með byrjandi þroska. Í nefinu er lakkrís, plómur, leður, eik, sólber, súkkulaði og pipar. Í munni eru stinn tannín, þokkaleg sýra og fínn ávöxtur. Súkkulaði, leður, eik og smá hrat í ágætu eftirbragði sem heldur sér vel en vantar örlítið upp á jafnvægið, mætti vera ögn meiri sýra fyrir svona vín. 89 stig.
Notendur Vivino.com gefa þessu víni 3.9 stjörnur (byggt á 116 umsögnum)
