Ég hef undanfarið fjallað um vín í Golden Reserve-línunni frá Trivento – Malbec og Cabernet Sauvignon. Það var því eiginlega nauðsynlega að klára þessa línu, a.m.k. rauðvínin og það er óhætt að segja að ég hafi náð að geyma það besta þar til síðast. Syrah-vínið er að mínu mati það besta af þessum þremur rauðvínum í Trivento Golden Reserve-línunni.
Vín dagsins
Trivento Golden Reserve Syrah 2015 er kirsuberjarautt á lit, unglegt með góða dýpt. Í nefinu finnur maður pipar, lakkrís, leður, plómur og sultuð vínber. Í munni eru góð tannín, fín sýra og flottur ávöxtur. Kirsuber, plómur, leður og pipar í sætu og góðu eftirbragðinu. Fór vel með hreindýrinu en nýtur sín eflaust líka vel með nauti og lambi.
Frábær kaup (2.999 kr). 91 stig.