Eitt þekktasta rauðvínið frá Ítalíu er hið goðsagnakennda Tignanello frá Antinori-fjölskyldunni – vín sem var eitt af brautryðjendum hinna s.k. ofur-Toscana vína sem hafa haft mikil áhrif á víngerð í Toscana-héraði. Vín dagsins kemur frá sama framleiðanda og nú orðið koma þrúgurnar eingöngu af betri vínekrum Antinori – Tignanello, Badia a Passignano og Pèppoli. Í Frakklandi eru flest stóru vínhúsin með það sem kalla má vín númer 2 og oft hægt að gera mjög góð kaup í þeim, og það má segja að vín dagsins sé nú orðið að litla Tignanello.
Vín dagsins
Vín dagsins hefur verið til á Íslandi um nokkuð langt skeið en hét lengi vel Tenuta Marchesi Antinori Chianti Classico Reserva. Nú er búið að fella niður Tenuta í nafninu (Tenuta má þýða sem bú og er sambærilegt við Bodega á Spáni) og nú stendur Tignanello neðst á miðanum. Hér er á ferðinni hreint Sangiovese-vín en „stóru“ vínin frá sama vínhúsi (Tignanello og Solaia) nota líka Cabernet Franc og Cabernet Sauvignon.
Marchese Antinori Chianti Classico Reserva 2015 er djúprautt á lit, unglegt, með góða dýpt. Í nefinu finnur maður leður, sólber, plómur, eik, timjan, lakkrís, vanillu og pipar. Í munni eru mjúk og flott tannín, góð sýra og þægilegur ávöxtur. Plómur, eik, leður og súkkulaði í frábæru eftirbragðinu. 93 stig. Fer vel með stórum steikum.
Frábær kaup (4.599 kr).
Hvað segja hinir?
Steingrímur í Vinotek gefur 5 stjörnur.
Þorri í Víngarðinum gefur 5 stjörnur.
Wine Spectator gefur 93 stig
Robert Parker gefur 92 stig.
Wine Enthusiast gefur 91 stig.