Þrúgan Zinfandel hefur verið nokkuð vinsæl í Bandaríkjunum í áraraðir, enda gefur hún af sér kröftug og góð rauðvín. Þó svo að þrúgan sé dökk þá er líka gert úr henni „hvítt“ Zinfandel, sem er reyndar aðeins bleikt á litinn og stundum allt að því hálfsætt. Það sem færri vita kannski er að salan á slíku víni er sexföld salan á rauðvíni úr sömu þrúgu í Bandaríkjunum. Þrúgan inniheldur frekar mikinn ávaxtasykur og því hægt að gerja úr henni vín sem geta auðveldlega farið yfir 15% að styrkleika.
Zinfandel hefur líklega komið til Bandaríkjanna um miðja 19. öld, og var þá talin vera afbrigði af þrúgunni „Zierfandler“ sem vex í Austurríki. Erfðarannsóknir hafa hins vegar sýnt að Zinfandel er sama þrúga og sú sem kallast Primitivo og er nokkuð vinsæl í Pugliu („hællinn“ á Ítalíu). Sennilega er þrúgan svo komin til Ítalíu frá Króatíu um svipað leyti og hún barst til Ameríku, en í Króatíu hafði hún verið ræktuð um aldaraðir. Hún þurrkaðist hins vegar nánast út í Króatíu í rótarlúsarfaraldrinum í lok 19. aldar.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Pugliu, frá framleiðanda sem nefnist La Bollina, en hins vegar tókst mér ekki að finna neinar upplýsingar um þetta vín hjá framleiðandanum.
La Bollina Primitivo di Manduria Tavros 2016 er djúprautt á lit, unglegt með sæmilega dýpt. Í nefinu finnur maður sætan lakkrís, pipar, plómur og lyng. Í munni eru hrjúf tannín, ágæt sýra og fínn ávöxtur. Dökk ber, leður og súkkulaði í ágætu eftirbragðinu. Gott grillvín, ágæt kaup (3.495 kr). 89 stig.
Hvað segja hinir?
Vivino gefa 4.4 stjörnur (7 einkunnir)