Næsta vín febrúarfundarins kom frá Bordeaux, nánar tiltekið frá Saint-Emilion, en vínin þar eru að mestu gerð úr Merlot og Cabernet Franc. Árið 2015 var einstaklega gott ár í Bordeaux, einkum við hægri bakkann í Bordeaux (Pomerol og Saint-Emilion), og jafnast fyllilega á við árin 2005 og 2010. Vínin sem nú eru að detta inn í vínbúðirnar eru enn nokkuð ung til að drekka og hafa gott af nokkurra ára geymslu til að þau fái að njóta sín til fulls.
Vín dagsins
Víngerð Chateau La Croix Meunier er til þess að gera lítið fjölskyldufyrirtæki, sem er þó byggt á gömlum grunni, og vínekrurnar eru a.m.k. 170 ára gamlar (vínviðurinn er að meðaltali um 35 ára), með 70% Merlot og 30% Cabernet Franc.
Chateau La Croix Meunier Saint-Emilion Grand Cru 2015 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska og ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður kaffi, kakó, franska eik, blóðberg og skógarber. Í munni eru hrjúf tannín, ágæt sýra og fínlegur ávöxtur. Skortir fyllingu, þarf að þroskast betur (3-4 ár), hefur góða möguleika. Ágæt kaup (3.535 kr). Fer vel með rauðu kjöti hvers konar og léttari villibráð. 88 stig.
Hvað segja hinir?
Notendur Vivino.com gefa víninu 4.0 stjörnur (59 umsagnir)