Það hafa verið haldnir nokkrir Vínklúbbsfundir í vetur sem ég á eftir að gera skil hér á síðunni. Á febrúarfundinum kom í ljós að gestgjafinn var með Cabernet-þema, þar sem öll vínin voru að mestu eða öllu leyti gerð úr þessari ágætu þrúgu.
Fyrsta vín febrúarfundarins kom frá Paso Robles í Kaliforníu, frá víngerð Jerry Lohr, sem er ein af þeim stærri í vínræktarsvæðunum Monterey County og Paso Robles. Vínið sem hér um ræðir er á lista tímaritsins Food & Wine yfir þau 50 vín sem maður getur ávallt treyst á að séu góð kaup (góð vín á góðu verði). Vínið er rúmlega 80% Cabernet Sauvignon en einnig er þarna að finna Petite Sirah, Merlot, Petit Verdot og Syrah í mismiklu magni.
J Lohr Cabernet Sauvignon Paso Robles Seven Oaks 2015 er dökkkirsuberjarautt á lit, með ágæta dýpt og byrjandi þroska. Í nefinu finnur maður leður, sætan berjakeim, pipar, rauð epli og smá negul. Í munni eru ágæt tannín, snörp sýra, sætur ávöxtur, sólber og leður, þokkalegt eftirbragð. Fer vel með grilluðu kjöti og ostum. Ágæt kaup (2.887 kr). 88 stig.
Hvað segja hinir?
Wine Spectator gefur þessu víni 88 stig.
Robert Parker og Wine Enthusiast hafa ekki dæmt þennan tiltekna árgang en aðrir árgangar hafa verið að fá 87 – 90 stig.