Hingað til hefur manni einkum dottið í hug Malbec þegar argentínsk vín ber á góm, einkum ef það er eitthvað varið í þau. Staðreyndin er hins vegar sú að argentínskir víngerðarmenn kunna einnig að fara með aðrar þrúgur og ná því besta úr þeim, þó svo að þeirra helstu gersemar rati ekki alltaf á okkar slóðir. Víngerð Trapiche er ein sú stærsta í Argentínu og vín þeirra tilheyra mismunandi vörulínum, líkt og gengur og gerist (einhverjar 14 mismundandi línur sýnist mér að séu á heimasíðunni).
Vín dagsins
Vín dagsins kemur eins og áður segir frá víngerð Trapiche sem staðsett er í Mendoza-héraði í Argentínu, sem er mikilvægasta vínræktarhéraðið þar í landi. Hér er um að ræða hreint Cabernet Sauvignon og koma þrúgurnar frá nokkrum mismunandi ekrum í Mendoza. Vínið er í Crianza-stíl og fékk að liggja á eikartunnum í 6 mánuði áður en það var svo sett á flöskur.
Trapiche Medalla Cabernet Sauvignon 2013 er kirsuberjarautt á lit, með byrjandi þroska, og ágæta dýpt. Í nefinu finnur maður sólber, leður, pipar, brómber, plómur, lyng og ögn af eik. Í munni eru góð tannín, fín sýra ogþéttur ávöxtur. Leður, sólber, plómur, krydd, eik og örlítið tóbak. Mjög góð kaup (2.999 kr). Á eftir 3-5 ár á toppnum. Fer vel með öllum steikum, góðum ostum eða bara eitt og sér. 90 stig.
Hvað segja hinir?
Steingrímur í vinotek.is gefur 4,5 stjörnur.
Notendur Vivino gefa 4.0 í einkunn (473 umsagnir).