Héraðið Marche er staðsett á austurströnd mið-Ítalíu, við hliðina á Toscana og fyrir ofan Abruzzo. Þarna nýtur Montepulciano-þrúgan sín vel, líkt og hún gerir um mest alla mið-Ítalíu.
Víngerð Umani Ronchi á sér rúmlega 50 ára sögu, en hefur samt lengst af verið í eigu Bianchi-Bernetti fjölskyldunnar sem keypti fyrirtækið af stofnandanum, Gino Umani Ronchi. Áhersla er lögð á lífræna ræktun vínviðarins og víngerðin hefur einnig stuðlað að ræktun annarra afbrigða sem voru við það að falla í gleymskunnar dá, s.s. Pecorino og Lacrima di Morro d’Alba.
Vín dagsins
Vín dagsins er nokkuð dæmigert fyrir Marche-héraðið, gert úr hreinni Montepulciano sem kemur af San Lorenzo-vínekrunum, þar sem helmingur vínsins var látinn þroskast í stórum eikartönkum en hinn helmingurinn hefur fengið að liggja í eitt ár á notuðum eikartunnum (búið að nota 3-4 sinnum áður, þannig að eikaráhrifin erum mjög mild). Vínið var svo látið þroskast í 6 mánuði til viðbótar áður en það fór í sölu. Nafnið Conero vísar til samnefnds klettaskaga í Marche sem skagar út í Adriahaf. Klettaskagi þessis er þjóðgarður sem þekktur er fyrir s.k. jarðarberjatré (þó svo að ávöxturinn eigi ekkert skylt við jarðarber), en vínekrurnar í San Lorenzo eru í nágrenni þessa klettaskaga.
Umani Ronchi San Lorenzo Rosso Conero 2015 er kirsuberjarautt á lit og unglegt að sjá, fallegt í glasi. Í nefinu eru kirsuber, hindber, pipar, lakkrís, kaffi og mild krydd. Í munni eru stinn tannín, þokkalegur ávöxtur og mild sýra. Leður, sólber, eik og kakó. Mjög góð kaup (2.590 krónur). Hentar vel með ostum, grilluðu svínakjöti, pastaréttum og gæti jafnvel hentað mildari villibráð. 88 stig.
Hvað segja hinir?
Wine spectator gefur þessu víni 88 stig.
Þorri Hringsson í Víngarðinum gefur 4 og hálfa stjörnu.
Notendur Vivino gefa 3,7 stjörnur (meðaltal 227 umsagna)