Íslenskir vínunnendur kannast kannski einhverjir við þrúguna Trebbiano, sem gefur af sér þurr og einföld hvítvín, sem sjaldnast verða langlíf. Kannski vita ekki margir af þeirri staðreynd að Trebbiano-þrúgan gefur af sér um þriðjung alls hvítvíns sem framleitt er á Ítalíu! Notkun þrúgunar er skilgreind í rúmlega 80 DOC á Ítalíu, en þrúgan sjálf hefur aðeins sjö eigin staðartilvísanir, þar á meðal þá sem er á víni dagsins, sem kemur frá Abruzzo á miðri Ítalíu.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá hinum ágæta framleiðanda Umano Ronchi. Hér er á ferðinni lífrænt vín úr Trebbiano-þrúgunni. Vínið var látið gerjast á stáltönkum áður en það fór svo beint á flöskur, þannig að hér er engin eik á ferðinni.
Umano Ronchi Montipagano Trebbiano d’Abruzzo 2017 er strágult á lit og unglegt að sjá. Í nefinu finnur maður lime, sítrónugras, melónur og perur. Í munni er góð sýra og fínn ávöxtur, vínið er þurrt og frísklegt. Sítrónur einkenna frísklegt eftirbragðið. Hentar vel með hvítmygluostum, fiski, pasta, risotto og ljósu fuglakjöti. Góð kaup (1.990 kr). 87 stig.
Hvað segja hinir?
Steingrímur í Vinoteki gefur 3,5 stjörnur.