Áramótabúbblurnar

Mörgum finnst vel við hæfi og jafnvel ómissandi að fagna áramótunum með kampavíni.  Líklega eru ekki samt allir sem gera greinarmun á kampavíni og öðru freyðivíni.  Kampavín – Champagne – heita aðeins þau vín sem koma frá samnefndu héraði í Frakklandi.  Freyðivín frá öðrum vínræktarhéruðum Frakklands kallast flest Cremant, en það gilda líka reglur um þau (s.s. að þrúgurnar verða að vera handtíndar af vínviðnum, magn uppskerunnar má ekki fara yfir þau mörk sem gilda í héraðinu, og vínin þarf að þroska í minnst eitt ár áður en þau fara í sölu).  Önnur frönsk freyðivín kallast einnig mousseux eða Blanquette.

En það eru ekki bara Frakkar sem framleiða freyðivín.  Spænsk freyðivín kallast Cava, uppfylli þau gildandi reglur um framleiðslu (þar á meðal að þau séu framleidd á sama hátt og kampavín), og sambærileg vín í Portúgal kallast Espumante. Reyndar gilda ekki jafn strangar reglur um framleiðsluferlið í Portúgal og ekki öll Espumante sem eru framleidd með kampavínsaðferðinni.  Frá Ítalíu þekkjum við svo freyðivín á borð við Prosecco, Lambrusco, Asti og Franciacorta, og frá Þýskalandi koma freyðivín sem kallast Sekt.

En þarf þá að skála í Kampavíni?

Það kostar skildinginn að skála í Kampavíni. Ódýrasta kampavínið (Kirkland Signature) kostar um 3.600 krónur og aðeins tvö til viðbótar kosta undir 4.000 krónum. Við erum svo fljótlega komin yfir 6.000 krónurnar og vilji maður fagna eftirminnilega þá kosta árgangskampavín á borð við Dom Perignon og Bollinger La Grande Anné um og yfir 20.000 krónur.  Ef manni finnst of mikið að borga hátt í 5.000 krónur fyrir áramótaskálina þá gæti verið góður valkostur að prófa Cremant frá Bourgogne eða Alsace sem kosta öðru hvoru megin við 2.500 krónur.  Það er einnig hægt að fá gott Cava fyrir svipaða upphæð, t.d. Perelada á rúmar 2.100 krónur og Nadal Brut á um 2.900 krónur.

Þeir sem eru „lengra komnir“ í kampavínum og öðrum freyðivínum færa sig oft yfir í bleiku vínin eða rosé.  Þau eru yfirleitt dýrari en þessi „glæru“ – ódýrasta kampavínið í þessum flokki kostar um 7.000 krónur og úrvalið af þessum vínum er mun minna í vínbúðunum.

En ekki eru allir sem vilja þurr freyðivín.  Sumir vilja hafa þau örlítið sæt og myndu þá líklega velja „Demi-Sec“ eða millisæt vín. Þá er hægt að velja um kampavín, Cremant og Cava, en vilji menn sæt freyðivín („Sec“) þá leitar maður að ítölskum freyðivínum á borð við Asti.

Hver er þá niðurstaðan?

Hér ræður auðvitað smekkur hvers og eins, en bestu kampavínskaupin (að mínu mati) gerir maður líklega í Charles Ellner Brut (3.999 kr), Nicolas Feuilatte Brut Reserve (4.999 kr), Gosset Grande Reserve Brut (4.999 kr), Drappier Brut Carte d’Or (5.990 kr), Moet & Chandon Brut Imperial (5.999 kr) og Bollinger Brut Rosé (8.590 kr).  Bestu kaupin í Cava eru líklega (að mínu mati) Nadal Brut (2.899 kr) og Juve y Camps Brut Nature Reserva de la Familia 2014 (2.999 kr – ath að hér er um árgangscava að ræða en flest hinna eru ekki árgangsfreyðivín).

Vinir á Facebook