Ég hef lengi verið að eltast við vínin sem rata inn á topplista víntímaritanna. Þegar ég bjó í Svíþjóð pantaði ég stundum vín sem voru fáanleg þar og ófáir gullmolarnir sem maður kynntist þannig. Líkt og venjulega eru það ekki mörg vín á þessum listum sem fást í hérlendum vínbúðum, en þau sem eru fáanleg er vel þess virði að prófa, eins og vín dagsins sýnir glögglega.
Vín dagsins
Vín dagsins kemur frá Alsace í Frakklandi, gert úr þrúgunni Pinot Gris. Pinot Gris er alveg einstaklega matarvæn þrúga og gengur með nánast öllu fiskmeti, ljósu fuglakjöti og salati. Vínin frá Alsace falla líka nánast öll með tölu í sama flokk matarvænna vína og það er nánast sama hvar maður drepur niður fæti, vín frá Alsace fara vel með mat. Svo er vín dagsins líka lífrænt ræktað.
Rene Mure Alsace Signature Pinot Gris 2016 er fallega gullið í glasi með fína tauma. Í nefi eru ljúfir tónar af perum, sítrónum, grösum og hvítum blómum. Í munni er góð sýra og flottur ávöxtur, þægilegur keimur af perum, sítrónum og apríkósum. Eftirbragðið heldur sér ágætlega og fyllingin er góð. Frábær kaup (2.599 kr). 92 stig.