Eftir því sem bragðlaukarnir hjá manni þroskast þá kann ég sífellt betur að meta góð freyðivín. Freyðivín eru nefnilega alveg frábær matarvín og er nánast alltaf við hæfi, hver sem maturinn er.
Vínhús Nadal í Penedés á sér langa sögu sem spannar rúmlega 500 ár. Það hefur gengið á ýmsu í sögu vínhússins – Phylloxera-rótarlúsin fór illa með vínekrurnar í lok 19. aldar, og hluti vínekranna var þjóðnýttur undir flugvöll í spænska borgarastríðinu. Að því loknu hóf Ramon Nadal Giró aftur að rækta vínvið þar sem flugvöllurinn hafði verið og árið 1943 kom fyrsti árgangurinn af Cava Brut Nadal fyrir sjónir almennings.
Vín dagsins
Líkt og aðrir betri freyðivínsframleiðendur þá framleiðir Nadal árgangs-cava þegar árferðið er nógu gott. Gran Reserva Cava þarf að fá að þroskast í minnst 5 ár í flösku áður en það er sett í sölu og þau eru ávallt þurr (brut) líkt og árgangskampavín. Vín dagsins er gert úr þrúgunum Xarel.lo og Parellada – Xarel.lo gefur vínum sýru og frískleika með sítrus- og eplakeim, Parellada fyllingu og blómlegan sítrus og hnetukeim.
Ramon Nadal Giró Brut Gran Reserva 2011 er fölgullið á lit og freyðir vel með fallegum, litlum loftbólum. Í nefinu finnur maður blómlegan ilm af gulum eplum, ferskjum og apríkósum. Í munni er vínið frísklegt en um leið smjörkennt með góða fyllingu og mildum eplatónum. Fer vel með ostum, salati og ljósu fuglakjöti. Góð kaup (3.999 kr). 90 stig.