Um síðustu helgi var ég staddur í Chicago í USA og komst þar í kynni við hina frábæru matarhöll sem kallast Eataly. Slíkar matarhallir eru víða um heim, m.a. á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum og Evrópu, en sú fyrsta var opnuð í Torino á Ítalíu árið 2004. Á þessum stöðum er boðið upp á margt af því besta sem ítölsk matarmenning hefur upp á að bjóða – pasta, ostar, skinkur og vín – og þarna eru ítalskir veitingastaðir þar sem hægt er að setjast niður og borða gómsætan mat. Þarna settumst við niður og fengum okkur pasta og fínerí, og með þessu var að sjálfsögðu drukkið ítalskt vín. Vínið eru úr þrúgunni Aglianico, sem lesendur Vínsíðunnar fengu að kynnast sl. vor í Aglianico-víninu frá Nativ, sem er því miður eina vínið úr þessari þrúgu sem fáanlegt er í vínbúðum á íslandi.
Vín dagsins
Framleiðandinn Montevetrano er með aðsetur í Campaniu á Ítalíu, í nágrenni borgarinnar Napoli, en þarna er líka stutt í eldfjallið Vesuvíus og öskulög í jarðveginum hafa eflaust áhrif á þrúgurnar sem þarna vaxa. Vín dagsins er hreint Agliancio sem hefur fengið að liggja í 10 mánuði á tunnum úr franskri eik og 4 mánuði í flöskunni áður en það fór svo í sölu.
Montevetrano Core Aglianico 2016 er dökk-kirsuberjarautt á lit, unglegt með ágæta dýpt og flotta tauma. Í nefinu finnur maður einkum pipar, lakkrís, leður og fjólur
Stinn tannín, flottur ávöxtur og hófleg sýra. Kryddað eftirbragð með pipar, leðri og smá hrati. Fer vel með lambi, nautakjöti og þroskuðum ostum. 88 stig. Ekki ætlað til langrar geymslu. Því miður ekki fáanlegt á íslandi en myndi líklega kosta öðru hvoru megin við 3.500 krónur.