Það má lengi deila um hvort bestu Chardonnay-vinin komi frá Chablis eða öðrum svæðum í Búrgúndí. Einhverjir gætu reyndar haldið fram að þau bestu komi frá Bandaríkjunum eða Ástralíu en það er önnur saga. Chardonnay og Chablis eru svo samofin að lengi vel voru hvitvín frá Kaliforníu kölluð Chablis, allt þarf til menn fór að fá einhvern metnað í þarlendri víngerð (og Evrópusambandið fór að verja rétt skilgreindra vínræktarsvæða í Evrópu til að takmarka eða stöðva slíka misnotkun). Chardonnay-þrúgan er almennt auðveld í ræktun enda ræktuð í flestum þeim löndum þar sem víngerð er stunduð. Frakkar hafa auðvitað mörg hundruð ára reynslu í víngerð með Chardonnay og hvergi hefur þeim betur tekist til en í Búrgúndí. Til að flækja málin þá er Chablis innan Búrgúndí en í daglegu tali er nánast litið á það sem aðskilið frá öðrum Búrgúndí-svæðum. Víngerð í Chablis er líka um margt frábrugðin víngerð í öðrum héruðum Búrgúndí, einkum þegar Chardonnay á í hlut. Chablis-vínin staldra yfirleitt stutt við í eikartunnum (ef þau á annað borð fara í tunnur) á meðan framleiðendur í öðrum héruðum Búrgúndí (þá erum við eiginlega bara að tala um Mâconnais og Côte de Beaune). Flest Chablis og Mâconnais eru frískleg, minerölsk með lime- og melónukeim, á meðan vínin frá Côte de Beaune hafa nánast alltaf viðkomu í eikartunnum og er smjörkennd með gulum epla- og melónukeim, jafnvel vanillu og hnetum. Efst í virðingarstiga Chablis eru Grand Cru-vínin, sem oft eru reyndar sett í eikartunnur og verða því aðeins smjörkennd líkt og vínin frá Côte de Beaune. Chardonnay-framleiðendur í öðrum löndum settu lengi vel nær öll sín vín í eikartunnur og hafa eflaust bætt eikarspæni út í, því að sum Chardonnay frá Nýja-heiminum voru lengi vel (og eru sum enn) með yfirgnæfandi eikarbragð. Reyndar verður hér að hafa í huga að í Nýja heiminum fer meira fyrir amerísku eikinni sem hefur meira og sterkara eikarbragð en sú franska sem notuð er í Búrgúndí.
Vín dagins
Flestir betri framleiðendur í Chablis og öðrum Búrgúndarhéruðum tilgreina af hvaða vínekrum þrúgurnar koma, á meðan „lægri sett“ vín geta verið blöndur af mismundandi vínekrum héðan og þaðan úr héraðinu. Þó að vín dagsins sé blanda af mismunandi vínekrum þá er það alls ekkert „lægra sett“ því allar ekrurnar (Berdiot, Côte de Vaubarousse, Fourneaux, Vaucoupin, Vosgros, Beauregard og Côte de Jouan) flokkast sem Premier Cru, sem er næstefsta flokkunin í gæðaflokkun Chablis. Hluti vínsins fékk að liggja um stund í eikartunnum áður en lokablöndun fór fram og vinið var svo sett á flöskur. Framleiðandinn La Chablisienne er nokkurs konar samyrkjubúskapur eða samvinnufélag vínbænda í Chablis og stærsti framleiðandi héraðsins. Lengi vel þóttu vínin vera skör neðar en vín annarra framleiðenda í Chablis, en nú eru breyttir tímar, því gæðin eru fyllilega á pari við aðra framleiðendur en verðið hins vegar yfirleitt hagstæðara og því nær alltaf hægt að gera góð kaup í vínum frá La Chablisienne.
La Chablisienne Chablis Premier Cru Grande Cuvee 2015 er fölgult á lit, með angan af sítrus, ferskum grösum og sumarblómum. Í munni er frískleg sýra og góður ávöxtur, með sítrónuberki, greipaldini og ögn af eik. Mjög góð kaup. 89 stig.